Handboltamafía úr Keflavík er á EM- erum langflottastir!
„Það er geggjuð stemmning og við erum langflottastir hérna úti,“ sögðu fjórmenningar úr handbolta-„mafíu“ Keflavíkur í samtali við vf.is frá Austurríki í dag. Já, Suðurnesjamenn eiga fulltrúa í Linz þar sem íslenska landsliðið keppir næstu daga.
Kapparnir eru kunnir fyrir afskipti sín af handbolta til áratuga þó þeir séu ekki orðnir fimmtugir. Þetta eru dómaraparið Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson og félagar þeirra, Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og athafnamaður og Einar Sigurpálsson í Merkiprenti.
„Við byrjum daginn á því að skokka sex kílómetra og í þeirri ferð í gærmorgun fundum við þennan fína pöbb ekki langt frá keppnishöllinni á EM,“ sagði Gísli Jóhannsson í samtali við vf.is í dag. Gísli sagði þá fjórmenninga ætla fylgjast með mótinu en þeir hafi ekki áður farið á svona stórmót áður. Eins og sjá má á myndinni eru þeir kappar skreyttir að hætti hússins og verða í fararbroddi í stuðningsliði Íslands í kvöld og næstu daga.
Þeir Gísli og Hafsteinn hafa verið dómarar í efstu deild handboltans á Íslandi í mörg, mörg ár og voru meðal annars kosnir besta dómaraparið í N1 deildinni í vetur eftir fyrstu sjö umferðirnar.
„Við erum að eignast pöbbinn hérna. Það er hægt að fá kaldan á kantinum hérna og það er ekki verra. En þá er líka gott að vera búinn að taka gott morguntrimm,“ sagði Gísli hress í bragði frá Austurríki í dag.
Á myndinni eru þeir fjórmenningar með Lindu Steinþórsdóttur sem býr í borginni eins og systir hennar, Helga og maður hennar Ragnar Sigurðsson.