Hammer með „hat-trick“
Þróttur Vogum tók á móti Haukum á Vogaídýfuvellinum í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Þróttarar kláruðu leikinn með fjórum mörkum í fyrri hálfleik og eru komnir í þriðja sæti deildarinnar með átta stig, einu stigi á eftir toppliðunum ÍR og KF.
Hammer Time
Það var Dagur Ingi Hammer sem sýndi stórkostlega frammistöðu og skoraði þrjú fyrstu mörk Þróttara (3', 25' og 32'). Það var svo hinn spænski Rubén Lozano Ibancos sem skoraði fjórða mark heimamanna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Ótrúleg 4:0 staða í hálfleik.
Það var ekki sama flugeldasýning í síðari hálfleiknum og hélst staðan óbreytt þar til á sjöundu mínútu uppbótartíma að Haukar náðu einu marki til baka. 4:1 sigur varð því niðurstaðan.
Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Vogaídýfuvellinum og má sjá myndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.
Kári - Njarðvík 0:2
Njarðvíkingar héldu upp á Skaga á föstudag og léku gegn Kára í fjórðu umferð 2. deildar.
Það voru Njarðvíkingar sem fóru með sigur af hólmi með mörkum þeirra Andra Fannars Freyssonar (22') og Einars Orra Einarssonar (33').
Njarðvík er nú í sjötta sæti deildarinnar með sex stig.
Leiknir - Reynir 4:2
Reynir Sandgerði hélt austur á Reyðarfjörð í gær, laugardag, þar sem þeir léku gegn Leikni Fáskrúðsfirði í 2. deild karla. Bæði lið eru nýliðar í deildinni en Leiknir féll úr Lengjudeildinni á meðan Reynir kom úr þeirri þriðju.
Leiknismenn komust í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik (18', 34' og 43') en Fufura Barros minnkaði muninn með tveimur mörkum áður en blásið var til hálfleiks (45'+1 víti og 45'+4).
Reynismönnum tókst ekki að jafna leikinn í seinni hálfleik en Leiknir skoraði fjórða mark sitt á 67. mínútu og gerði út um leikinn.
Reynir situr í sjöunda sæti 2. deildar karla með sex stig eins og Njarðvík.