Hamarsstúlkur lágu enn í Keflavík
„Við unnum þær síðast með einhverjum fjörtíu stigum og vorum smá stund að komast í gang. Þær líka komnar aftur með annan útlending sem þær misstu um tíma. Þrátt fyrir það var þetta mjög sannfærandi sigur hjá okkur,“ sagði Birna Valgarðsdóttir eftir öruggan Keflavíkursigur á Hamri í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 95-79.
Birna átti enn einn stórleikinn og skoraði 31 stig. Pálína Gunnlaugsdóttir stóð henni ekki langt að baki og skoraði 27 stig. Keflavíkurliðið hefur verið mjög sannfærandi í undanförnum leikjum og firnasterkt. Fáir veikleikar en í síðustu tveimur leikjum hefur Svava Ósk Stefánsdóttir ekki leikið sökum meiðsla. Bryndís Guðmundsdóttir hefur komið sterk inn eftir hlé og hún skoraði 15 stig, Ingibjörg fyrirliði Vilbergsdóttir var með tíu stig. Birna var í skýjunum með sigurinn og frammistöðu liðsins í kvöld.
- Þú hlýtur að vera sátt þó svo þið hafið verið lengi í gang, ef svo má segja?
„Já, það kom okkur líka aðeins á óvart að Julia (Demirer) var með Hamri aftur og það var ljóst að þær ætluðu ekki að láta okkur rúlla yfir sig aftur. En þegar við höfðum aðeins náð áttum, áttu þær ekki möguleika. Við erum í stuði og höfum verið að leika vel í undanförnum leikjum. Við erum með mjög sterkt byrjunarlið og líka góðan bekk. Það getur hver sem er komið inn á.“
- Ertu sátt við að hafa fengið Val í Subway bikarnum?
„Já, það er bara fínt. Við stefnum á sigur í þeirri keppni eins og öðrum“.
Hamarsstúlkur voru 17-23 yfir eftir fyrsta leikhluta en í hálfleik var jafnt 45-45. Í seinni part þriðja leikhluta stungu Íslandsmeistararnir blómastúlkurnar úr Hveragerði af, sýndu hreinlega hverjar valdið höfðu með pressuvörn og baráttu í sókn. Í lokin munaði sextán stigum, 95-79 fyrir Keflavík.
Stig Keflavíkur: Birna 31, Pálína 27, Bryndís 15, Ingibjörg 10, Rannveig 4, Halldóra 3, Hrönn 3 og Marín 2.
Stigahæstar blómastúlkna var Julia Demrier með 25 stig. Blökkustúlkan Kiki var með 22 og saman skoruðu þær 47 af 79 stigum Hvergerðinga.
Marín Rós brunar upp að körfu Hamars. Ingibjörg fyrirliði að neðan. Birna Valgarðs á efstu myndinni.