Hallgrímur hættir með Njarðvík
Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í Domino’s- deild kvenna í körfu er hættur með liðið, þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu körfuknattleiksfélags Njarðvíkur.
Þar kemur meðal annars fram að félagið og Hallgrímur hafi komist að samkomulagi um það að Hallgrímur stigi til hliðar sem þjálfari liðsins, hann hafi komið til klúbbsins í byrjun vetrar með miklum eldmóð en að árangur liðsins hafi hins vegar verið undir væntingum bæði stjórnar og þjálfarans og var það hugur beggja aðila að tími væri kominn á að slíta samstarfinu.
„Stjórn kkd. UMFN vil koma fram þökkum til Hallgríms fyrir störf hans fyrir félagið og þá fagmennsku sem hann hefur sýnt allt til loka samstarfsins og um leið óskum honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir næst. Ragnar Halldór Ragnarsson mun stýra liðinu til loka tímabils í það minnsta en Ragnar var aðstoðarþjálfari liðsins á síðasta tímabili. Við bjóðum Ragnar um leið velkomin aftur á hliðarlínuna.“