Halldór og Bjarni Íslandsmeistarar í brasilískri glímu
Um helgina fór fram Íslandsmeistaramót barna og unglinga í Brasilískri glímu eða Brazilian jiu jitsu. Njarðvíkingar mættu með ellefu keppendur og unnu þau Stefán Elías, Jana Lind, Daníel Dagur og Ingólfur Rögnvaldsson öll til bronsverðlauna eftir margar erfiðar viðureignir.
Ægir Már Baldvinsson keppti í elsta flokki undir 65 kg. Hann sigraði fyrsta bardagann á hengingu sem og undanúrslitabardagann. Í úrslitabardaganum var hann yfir allan tíman vegna öflugra sókna. Þegar 30 sekúndur voru eftir af viðureigninni skoraði andstæðingur hans stig og varð Ægir því annar í sínum flokki.
Í -79kg flokki sigraði Bjarni Darri Sigfússon örugglega. Hann stjórnaði öllum sínum viðureignum hvort sem það var standandi eða í gólfinu og sigraði alla sína bardaga á uppgjafartökum.
Í flokki unglinga sem eru þyngri en 80kg sigraði svo ungstirnið Halldór Matthías Ingvarsson. Hann stimplaði sig inn í BJJ samfélagið á þessu móti. Hann sigraði einn öflugasta BJJ glímumann landsins í fyrstu viðureign með armlás. Í úrslitaglímunni barðist hann við glímumann sem var einnig brúnbeltingur í júdó. Halldór stjórnaði þeirri glímu sem byrjaði með fallegu kasti og endaði með uppgjafartaki.
Bjarni Darri Sigfússon keppti svo í opnum flokki sem er erfiðasti flokkurinn því þar er keppt óháð þyngd. Bjarni hélt uppteknum hætti og sigraði flokkin með yfirburðum. Annar Íslandsmeistaratitill Halldórs og fjórði Íslandsmeistaratitill Bjarna á þessu ári.