Hafþór Júlíus Sterkasti maður á Íslandi þriða árið í röð
Hafþór Júlíus Björnsson var krýndur Sterkasti maður á Íslandi þriðja árið í röð en mótið var haldið á Sjóaranum síkáta í Grindavík um helgina. Níu kraftajötnar mættu til leiks en Hafþór Júlíus, sem er yfir tveir metrar á hæð og 193 kg, var í þó nokkrum sérflokki og stóð uppi sem sigurvegari eftir átta afar erfiðar greinar en hann vann sex af þeim!
Í öðru sæti varð Ari Gunnarsson og Páll Logason í því þriðja. Keppt var í hefðbundnum kraftagreinum eins og t.d. bóndagöngu, sirkuslyftu, trukkadrætti, atlassteinatökum og svo nýrri sjómannagrein, bryggjupollaburði. Fjöldi áhorfenda fylgdist með keppninni báða dagana en Magnús Ver Magnússon hefur veg og vanda að skipulagningu mótsins.
„Ég hef aldrei verið í betra formi og ég var ánægður með hvernig til tókst. Þetta er frábært mót hér í Grindavík, umgjörðin til fyrirmyndar og veðrið var auðvitað alveg með ólíkindum. Þetta er góður undirbúningur fyrir Evrópukraftamót sem ég fer í núna síðar í þessum mánuði," sagði Hafþór Júlíus, Sterkasti maður á Íslandi 2012.
Efsta mynd: Páll Logason, Ari Gunnarsson og Hafþór Júlíus, Sterkasti maður á Íslandi.
Hafþór Júlíus í bryggjupollaburði.