Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hafsteinn: Ekki alltaf dans á rósum
Föstudagur 8. júní 2007 kl. 11:52

Hafsteinn: Ekki alltaf dans á rósum

Reynir Sandgerði hefur fengið tvö þung kjaftshögg að undanförnu í 1. deild karla í knattspyru að sögn fyrirliðans, Hafsteins Rúnars Helgasonar. Reynir lá heima 5-1 gegn Þór á dögunum og í gær máttu Sandgerðingar þola 5-0 tap gegn Stjörnunni í Garðabæ. Reynir hefur því fengið á sig 10 mörk og aðeins skorað eitt í síðustu tveimur leikjum. Hafsteinn Rúnar talar um andleysi í stuttu spjalli við Víkurfréttir.

 

„Síðustu tveir leikir hafa verið erfiðir og það er eitthvað andleysi í liðinu og þetta er allt annað en það sem við sýndum í tveimur fyrstu leikjunum. Við erum greinilega að fara með rangt hugarfar í leikina og Jakob þjálfari lét okkur heyra það eftir leikinn gegn Stjörnunni,” sagði Hafsteinn og bætti því við að Reynismenn þyrftu að gyrða rækilega í brók ef þeir ætluðu sér að halda sæti sínu í deildinni.

 

„Framundan er bikarleikur og svo verðum við að fara að hala inn stigum á heimavelli í deildinni og reyna að klóra í stig á útivöllum. Hvað leikinn gegn Stjörnunni varðar þá fengum við t.d. tvö dauðafæri í upphafi leiks og misstum dampinn algjörlega þegar Stjarnan varð svo á undan til þess að skora. Lokatölurnar segja ekki allt því mér fannst ekki vera fimm marka munur á liðunum en málið er að Stjarnan vildi þetta miklu meira en við.”

 

Hvað er þá framundan hjá Reyni, hvað er til ráða?

„Það er vonandi að menn fái bara ærlega ráðningu á næstu æfingum svo allir ranki við sér og komi dýrvitlausir í næstu leiki og að hlutirnir fari að smella saman að nýju. Þetta eru allt erfiðir leikir eftir og svona er fótboltinn, það er ekki alltaf dans á rósum í þessu.”

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024