Hættur í körfunni og raðar inn mörkunum
„Ég valdi núna fyrir sumarið og hætti í körfunni eftir að hafa unnið bæði bikarkeppnina og Íslandsmeistaratitilinn með körfunni og ætla bara að einbeita mér að fótboltanum framvegis,“ segir Andri Fannar Freysson sem hefur blómstrað með Njarðvíkingum í 2. deildinni í sumar. Hann segir stefnuna svo setta á það að komast í efstu deild háskólafótboltans í Bandaríkjunum en hann er byrjaður að þreifa fyrir sér í þeim efnum. Andri segir það vissulega kitla að vera hérna heima en hann hafi alltaf stefnt á það að komast til Bandaríkjanna og ætlað sér að fá menntun samhliða knattspyrnunni.
Ákvörðunin um að velja á milli fótbolta og körfubolta hefur nagað Andra í nokkurn tíma en flestallir hafi ráðlagt honum að velja fótboltann þar eru mun meiri möguleikar á að ná langt. „Mér finnst samt alveg jafn skemmtilegt í báðum íþróttunum ennþá, en ef maður ætlar sér að ná lengra verður maður að einbeita sér að einni íþrótt.“ Hann segist hvergi banginn við að fara til Bandaríkjanna svo ungur að árum og segir að þar muni sennilega bíða hans ævintýri og dýrmæt reynsla enda þurfi hann algerlega að standa á eigin fótum.
Andri er sonur Freys Sverrissonar sem átti farsælan knattspyrnuferil og hann er þá einnig frændi Sverris Þórs Sverrissonar sem allan sinn feril var í eldlínunni bæði í körfubolta og fótbolta. „Sverrir ráðlagði mér að velja annað hvort, hann sér eftir því að hafa ekki gert það fyrr sjálfur.“ Andri segir enga pressu hafa verið frá pabba sínum að velja fótboltann en hann styðji hann sama hvað hann tekur sér fyrir hendur.
Andri segir sumarið hjá Njarðvíkingum hafa verið frábært. „Hér er klassa hópur og stemningin er góð í liðinu og ég er nokkuð sáttur með okkar frammistöðu, þrátt fyrir að hún hefði mátt vera betri. Við höfum ekki enn unnið tvo leiki í röð og það er pressa á okkur að vinna næsta leik,“ segir Andri en 2. deildin hefur verið óvenju jöfn þetta sumarið. „Maður hefur varla séð annað eins, eða heyrt af svona jafnri deildarkeppni.“ Andri segist ekki vera eiginlegur framherji heldur spili hann í nánast öllum stöðunum í sóknarleiknum þar sem hans krafta er óskað, þó líki honum best að vera framarlega á miðjunni þar sem hann fái að hlaupa í fríu svæðin og skapa færi fyrir liðsfélagana.
Bara plús að skora
Í sumar hefur Andri sem verður 19 ára síðar í ágúst skorað 14 mörk í 18 leikjum og er næstmarkahæstur í deildinni en hann hafði ekki komið mikið við sögu hjá meistaraflokki fyrir þetta tímabil. Hann var tekinn inn í meistaraflokk á miðju tímabili í fyrra og fékk nokkur tækifæri það sumarið. Hann hefur aldrei tekið þátt í heilu undirbúningstímabili með fótboltanum því körfuboltinn hefur enn verið í gangi. Andri fer ekkert í felur með það að hann hefur háleit markmið og hann hefur sett stefnuna á að komast í 21 árs landsliðið. „Það er mitt fyrsta markmið í fótboltanum,“ segir Andri sem þó hefur leikið með yngri landsliðum Íslands en hann á að baki 10 leiki með undir 17 ára landsliðinu.
„Á mínum yngri árum skoraði ég yfirleitt mikið en ég hugsa ekki mikið út í þetta, það skiptir mestu máli að við vinnum leiki, bara plús að skora,“ segir Andri og hlær þegar blaðamaður segir að þetta verði framherjar að segja þó svo að þeir vilji alltaf skora.
Eins og áður kom fram er Freyr Sverrisson faðir Andra en Freyr hefur getið sér gott orð sem þjálfari og þá sérstaklega í yngri flokkum þar sem hann hefur náð frábærum árangri. „Hann mætir á flesta leiki hjá mér og ég tala við hann eftir leiki og reyni að fá ráð hjá honum. Hann hefur hjálpað mér mikið og það er gott að hafa einhvern eins og hann til að tala við. Andri var einmitt hluti af fyrsta liði Njarðvíkinga sem vann Shellmótið fræga í Vestmannaeyjum þegar faðir hans stýrði liðinu til sigurs. „Það er hugsanlega eftirminnilegasta mót sem ég hef spilað á. Í úrslitaleiknum sem við unnum 3-1 gegn FH skoraði ég tvö mörk og pabbi skipti mér útaf og ég gleymi því aldrei þegar ég hljóp af velli og faðmaði hann.“ Njarðvíkingar sigruðu svo mótið aftur að ári en sá árangur er einstakur miðað við stærð bæjarins.
Njarðvíkingar eiga góða möguleika á því að tryggja sér sæti í 1. deild að ári og Andri segist ekki hafa trú á öðru en að það takist og að liðið vinni hreinlega alla þá leiki sem framundan eru.