Gunnar tryggði Grindvíkingum sigur í Suðurnesja-stríðinu
Sex stigum munar á Grindvíkingum og Keflvíkingum
Eins og við var búist var ekki gefinn þumlungur eftir þegar grannarnir í Grindavík og Keflavík áttust við á Grindavíkurvelli í 1. deild karla í fótbolta í kvöld. Grindvíkingar fóru með 1-0 sigur af hólmi en mikil barátta einkenndi leikinn.
Keflvíkingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og áttu betri færi. Margumtalaður sóknarleikur Grindvíkinga var ekki uppá marga fiska. Þeir virtust ekki klárir í hörkuna og návígin líkt og Keflvíkingar sem vörðust vel, en oft vantaði upp á síðustu sendinguna fremst á vellinum og því voru þeir ekki ýkja hættulegir í teig Grindvíkinga.
Grindvíkingar komu hressari frá búningsklefum í síðari hálfleik og jafnræði varð með liðinum. Bæði lið gerðu tilkall til vítaspyrnu en engin veruleg hættuleg færi gerðu vart við sig. Á 70. mínútu var það miðjumaðurinn Gunnar Þorsteinsson sem skoraði laglegt mark í mikilli umferð í teig Keflvíkinga. Flott skot í bláhornið sem Beitir í markinu réð ekki við, litla dæmið! Gunnar er heitur þessa dagana en hann skoraði tvö mörk í síðasta leik. „Við náðum upp spili í fimm sekúndur og náðum markinu, það skilur liðin að hérna í kvöld,“ sagði markaskorarinn Gunnar í leikslok en viðtal við hann má sjá hér að neðan.
Eftir mark Gunnars var mikil pressa að marki heimamanna. Mönnum var heitt í hamsi og fengu nokkur gul að líta dagsins ljós. Þrátt fyrir ótal pústra og puð frá Keflvíkingum þá tókst þeim ekki að ógna marki þeirra gulklæddu að ráði. Grindvíkingar eru nú með sex stiga forskot á Keflvíkinga en þeir eru þó ennþá að elta KA á toppnum sem unnu 3-0 sigur í kvöld, en einu stigi munar á liðunum.
„Þetta voru svekkjandi úrslit það er ekki hægt að neita því. Sérstaklega í ljósi þess að við vorum betra liðið og fáum góð færi og eigum að fá víti þegar brotið er á Jónasi í fyrri hálfleik,“ sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Keflvíkinga í leikslok, en viðtal við hann má sjá hér.