Gunnar Þorsteinsson til Grindavíkur
Mikill liðsstyrkur fyrir Grindvíkinga
	Miðjumaðurinn Gunnar Þorsteinsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt Grindavík eftir að hafa leikið með ÍBV síðustu þrjú tímabil í Pepsi-deildinni.
	Gunnar er 21 árs miðjumaður sem hefur leikið 56 leiki í Pepsi-deild og 11 bikarleiki og skorað 2 mörk. Þá hefur hann leikið 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði 2 mörk, þar af hefur hann leikið fjóra leiki með U21 landsliðinu. Gunnar lék í gegnum yngri flokkana með Grindavík en var í tvö ár í unglingaliði Ipswich Town áður en hann fór í ÍBV.
	
	„Eftir þrjú skemmtileg og viðburðarrík ár hjá ÍBV fannst mér kominn tími fyrir nýja áskorun. Grindavík var alltaf efst á blaði enda mitt uppeldisfélag og framundan eru afar spennandi tímar hjá félaginu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að koma liðinu upp í Pepsi-deild á nýjan leik,“ segir Gunnar.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				