Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gunnar: Stefndum að þessu allan tímann
Föstudagur 14. mars 2008 kl. 22:07

Gunnar: Stefndum að þessu allan tímann

Keflvíkingar eru deildarmeistarar í Iceland Express deild karla eftir sigur á Skallagrím í Borgarnesi í kvöld. Fyrir leikinn var vitað að Keflvíkingar myndu með sigri tryggja sér efsta sætið. Lokatölur voru 76-84 Keflavík í vil en Borgnesingar áttu fína spretti í síðari hálfleik en sterk svæðisvörn Keflavíkur var á endanum það sem gerði útslagið. Víkurfréttir náðu stuttu tali af Gunnari Einarssyni leikmanni Keflavíkur rétt í þessu sem var að vonum kátur með sigurinn.
 
,,Við stefndum að þessu allan tímann að klára í efsta sæti. Skallagrímur gerði góða atlögu að okkur í síðari hálfleik en við náðum að taka leikinn í okkar hendur. Erlendu leikmennirnir okkar áttu góðan leik sem og fleiri í liðinu,” sagði Gunnar en lagði áherslu á að það mikilvægasta væri í höfn, heimaleikjarétturinn.
 
,,Nú er bara spurning hvort við fáum Stjörnuna, Þór eða Tindastól í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það er alveg sama hvaða liði við mætum, það sem skiptir máli er að við erum með heimaleikjaréttinn,” sagði Gunnar hress í bragði.
 
Deildarkeppninni í Iceland Express deild karla lýkur á þriðjudag þar sem Keflvíkingar fá deildarmeistaratitilinn afhentan þegar Fjölnismenn koma í heimsókn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024