Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gunnar Örlygs segir að ef einhvern eigi að reka, sé það hann
Gunnar er hér lengst til vinstri. Myndin er úr safni.
Þriðjudagur 8. nóvember 2016 kl. 10:09

Gunnar Örlygs segir að ef einhvern eigi að reka, sé það hann

Gunnar Örlygsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, sagði á Facebook síðu sinni í gærkvöldi eftir tapleik Njarðvíkur gegn Keflavík í Maltbikarnum að ef einhvern eigi að reka, þá sé það hann. Hann hafi ekki staðið sig í stykkinu með stóra leikmenn í liðið.

Njarðvíkurliðið er með þrjú töp og tvo sigra í Dominos deildinni og er nú dottið út úr Maltbikarnum. Miðherjinn Corbin Jackson var látinn fara frá félaginu þar sem hann þótti ekki standa undir væntingum og hefur liðið því verið í vandræðum með að fylla stöðu miðherja. Páll Kristinsson og Hjörtur Hrafn Einarsson voru báðir fengnir inn í hópinn aftur en Páll hafði lagt skóna á hilluna og Hjörtur hafði einnig ákveðið að hætta fyrir þetta tímabil. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Daníels Guðna, þjálfara Njarðvíkinga, kemur nýr kani í næstu viku sem mun spila stöðu miðherja. Vegna reglna í íslenskum körfubolta um að aðeins megi einn bandarískur leikmaður spila inni á vellinum hverju sinni þýðir þetta að Daníel mun þurfa að deila spilatíma milli Stefan Bonneau og nýja kanans.

Facebook færslu Gunnars Örlygssonar má sjá hér í heild sinni:
„Ég styð lið mitt og minn þjálfara 100%. Nú eru neikvæðar raddir byrjaðar að heyrast um gengi liðsins okkar - Njarðvík. Ég skil þessa óþolinmæði. Ef eh á að reka - þá skal reka mig fyrir að hafa ekki staðið mig í stykkinu með stóra leikmenn í liðið. Þarna féll ég á prófinu sem formaður KKD Njarðvíkur. En það er ekki öll nótt úti enn. Spyrjum að leikslokum, við munum bíta frá okkur. Trúi því og treysti 100%. Njarðvík skal verða meðal allra bestu liða landsins ef ekki það besta í vor. Áfram Njarðvík.“