Gunnar Már er óstöðvandi, tók nafna sinn í jöfnum leik
Grindvíkingurinn Gunnar Már Gunnarsson er óstöðvandi í tippleik Víkurfrétta, hann tók nafna sinn Oddsson frá Keflavík um helgina og er orðinn öruggur um þriðja sætið hið minnsta því hann er með jafnmarga leiki og sveitungi sinn, Jónas Þórhallsson, en á hið minnsta eftir að vera á stalli í eitt skipti í viðbót.
Leikur nafnanna fór 8-7 og má Oddsson vera svekktur, hann var með tvo síðustu leikina tvítryggða með 1x en báðir leikir enduðu með útisigri (2) og því þurfti hann að lúta í lægra haldi að þessu sinni.
Það er ljóst að Víkurfréttir þurfa að grafa djúpt til að finna áskoranda sem getur ýtt Gunnari Má af stalli.