Gunnar Einarsson hættur
Gunnar Einarsson hefur ákveðið að segja skilið við körfuknattleik en hann hefur átt gríðarlega langan og farsælan feril með Keflvíkingum. Gunnar sem er 34 ára er leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi með rúmlega 800 leiki að baki og hann hefur lyft 21 titli með liðinu, þ. á m. sex Íslandsmeistaratitlum og þremur bikarmeistaratitlum. Gunnar á einnig að baki 27 landsleiki og verður vafalaust sjónarsviptir af þessum mikla baráttujaxli úr íslenskum körfubolta.
„Eins og staðan er þá langar mig einfaldlega að einbeita mér að nýjum hlutum, rækta sjálfan mig og fjölskylduna. Ég hef sett stefnuna á að fara í nám hjá Keili og nema þar ÍAK einkaþjálfarann því ég tel mig hafa margt sem þarf til að geta miðlað minni reynslu til annarra íþróttamanna sem vilja efla sig og ná betri árangri. Svo má auðvitað alls ekki gleyma því hvað það er gaman að vera heima í kvöldmatnum og geta loksins eldað og látið ljós mitt skína þar,“ segir Gunnar sem viðurkennir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hann velti þessu fyrir sér.
„Þegar líða tekur á seinni hluta ferilsins þá fara þessar spurningar að vakna hjá manni og var þetta þannig í mínu tilfelli að ég tók bara eitt ár í einu og á meðan kroppurinn var í lagi og eftir gott sumarfrí frá körfubolta þá mætti ég ferskur inn í undirbúningstímabilið. En það verður breyting á því hér með,“ bætir Gunnar við.
Gunnar segist hafa fengið spurningar hvort hann sé alveg hættur frá því tímabilinu lauk og svaraði hann þeim á þann veg að hann ætlaði að skoða þetta eftir sumarið. Hann hefur nú tekið þessa ákvörðun og stendur fast á henni.
Heldur þú að þú eigir ekkert eftir að sakna íþróttarinnar? „Ég hugsa það alls ekki þannig, það er meira þannig að ég ætla mér að koma að íþróttinni með nýrri nálgun, þ.e.a.s. ég ætla að hella mér út í þjálfun og koma íþróttamönnum í enn betra líkamlegt ástand svo þeir geti verið besta útgáfan af sjálfum sér. Ég efast þó ekki um að það eigi eftir að fljúga í gegnum hugann í nágrannaleikjunum að mig langi að stökkva inn á og taka þátt.
Sjá nánar í nýjasta hefti Víkurfrétta.