Gummi Steinars: Það er gott að eiga svona góða nágranna
„Það var mjög gott að vakna í morgun og hafa unnið 5-0 í gær. Það er aldrei leiðinlegt að vakna eftir sigurleiki,“ sagði Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur. Kelfvíkingar unnu stórsigur á Þrótti R. í gærkvöldi og lyfti sér upp í toppsætið í kjölfarið.
„Leikirnir í gær spiluðust okkur í hag og við sitjum því einir á toppnum eins og staðan er núna. Ég held að það sé eins í öllum hópíþróttum og liðum líður vel ef þau eru í efsta sætinu. Okkur líður vel á toppnum en það er mikið eftir af mótinu,“ sagði Guðmundur sem á von á erfiðum leik gegn KR n.k. sunnudag.
„KR-ingar verða erfiðir heim að sækja en okkur í Keflavík finnst rosalega gaman að spila á móti KR. Þetta er leikur sem stuðningsmenn og leikmenn hlakka til á hverju ári og það er alltaf skemmtileg stemmning að spila á móti KR.“
„Við erum með þannig hóp af leikmönnum sem finnst skemmtilegt að spila fótbolta og þessi leikur snýst um það að skora mörk. Við erum mjög áhugasamir um að skora mörk sem lýsir sér í því að við sækjum mikið og sækjum hratt. Við fáum margar sóknir í hverjum leik og náum því stundum að opna varnir andstæðingsins,“ sagði Guðmundur sem var ánægður með Grindvíking í gærkvöldi en þeir unnu FH, 0-1 á Kaplakrikavelli.
„Það er gott að eiga svona góða nágranna á svona dögum.“
VF-MYND/Hilmar Bragi: Guðmundur Steinarsson hefur verið iðinn við kolann fyrir framan mark andstæðinganna í sumar.