Guðný og Vesna fóru á kostum í rigningunni
Keflavíkurkonur halda uppteknum hætti á heimavelli í Landsbankadeild kvenna en þær gjörsigruðu nýliða ÍR 7-0 í kvöld þar sem þær Guðný Petrína Þórðardóttir og Vesna Smiljokovic voru með sína hvora þrennuna. Danka Podovac gerði eitt mark fyrir Keflavík sem nú hefur gert 14 mörk í tveimur heimaleikjum og ekki enn fengið á sig mark á heimavelli. Keflavík deilir nú 2. sæti með Valskonum en bæði lið hafa 6 stig en Valur á leik til góða.
Vesna Smiljokovic hefur verið valin í serbneska landsliðið sem mætir Íslendingum á Laugardalsvelli þann 21. júní næstkomandi en hún var hin kátasta í leiksloka enda hafði hún gert þrjú mörk og gefið tvær sendingar í leiknum sem leiddu til marks. „Þetta er fyrsta þrennan mín hérna á Íslandi,“ sagði Vesna. „Það var einnig mikill heiður að vera valin í landsliðið og þetta verður í fyrsta skipti sem ég mæti íslenska liðinu. Það er alltaf heiður að fá að spila fyrir þjóð sína,“ sagði Vesna sem er ekkert of hrifinn af því að leika fótbolta við aðstæður eins og veðurguðirnir buðu upp á í kvöld. „Það er mun skemmtilegra að spila í sól og góðu veðri en ég vonast til þess að halda áfram að skora í næstu leikjum. Það er einnig gaman að leggja upp mörk en á endanum eru það ekki einstaklingsframtökin sem skipta máli heldur úrslitin,“ sagði Vesna sem er vel að sæti sínu komin í serbneska landsliðinu og ljóst að hún er einn besti vinstri kantmaðurinn í deildinni í dag.
ÍR átti fyrsta færi leiksins með skoti úr teignum sem fór rétt framhjá en við það marktækifæri var eins og heimakonur hrykkju í gang og tóku þær alla stjórn á leiknum það sem eftir var. Vesna Smiljokovic átti skot á 7. mínút sem hafnaði í hliðarnetinu en aðeins tveimur mínútum síðar kom há sending yfir vörn ÍR sem endaði við fætur Guðnýjar Petrínu. Guðný tók vel við boltanum og renndi honum örugglega framhjá markverði ÍR og staðan 1-0 fyrir Keflavík.
Á 14. mínútu var mark dæmt af Keflavíkurkonum fyrir brot í teignum en heimakonur voru ekki lengi að jafna sig á því og bættu við öðru markinu á 20. mínútu með góðu skoti frá Dönku Podovac og staðan orðin 2-0.
Guðný Petrína gerði sitt annað mark í leiknum á 33. mínútu. Keflavík braust þá upp hægri kantinn og aldrei þessu vant var það Vesna, sem oftar en ekki er á vinstri vængnum, sem braust upp hægri kantinn og fann Guðný Petrínu í teignum sem skilaði boltanum í netið og staðan orðin 3-0 fyrir Keflavík.
Guðný fullkomnaði þrennu sína rétt fyrir hálfleik en þá voru þær vinkonurnar Vesna og Guðný aftur að verki. Vesna brunaði inn í teig með varnarmann ÍR á hælunum og af mikilli óeigingirni renndi hún boltanum á Guðnýju sem var í betra færi og aftur stóð Guðný fyrir sínu og breytti stöðunni í 4-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað og sökum veðurs var boltinn ekki mikið fyrir augað en Keflavík varð þó fyrra til að hrista af sér kuldann og hleypa að nýju lífi í leikinn.
Á 73. mínútu var komið að Guðnýju að launa Vesnu sendingarnar góðu þegar hún sendi boltann fyrir markið og Vesna kom aðvífandi og skoraði örugglega og staðan 5-0 og öruggur Keflavíkursigur í höfn en heimakonur hvergi nærri hættar.
Sjötta mark Keflavíkur gerði Vesna á 79. mínútu þegar miðvörðurinn og fyrirliðinn Lilja Íris Gunnarsdóttir kom til hennar eitraðri stungusendingu. Vesna hristi af sér tvo varnarmenn ÍR, lék á Mist Elíasdóttur í markinu og sendi boltann í netið og staðan 6-0.
Smiðshöggið rak Vesna Smiljokivc á 87. mínútu og innsiglaði þar með þrennu sína í leiknum. Karen Sævarsdóttir, sem kom inn á sem varamaður sendi hættulegan bolta fyrir markið og Mist náði ekki til hans í ÍR markinu. Vesna kom þá aðvífandi og skoraði þriðja sinni og sjöunda mark Keflavíkur í leiknum.
Lokatölur 7-0 og það var aldrei spurning í kvöld hvort liðið færi með sigur af hólmi. Næsti leikur Keflavíkurkvenna í deildinni er gegn Íslandsmeisturum Vals og fer hann fram á Valbjarnarvelli laugardaginn 9. júní kl. 14:00.