Guðni sæmdur heiðurskrossi KSÍ
Keflvíkingurinn Guðni Kjartansson var sæmdur Heiðurskrossi Knattspyrnusambands Íslands á 68. ársþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri. Guðni var fyrirliði gullaldarliðs Keflavíkur í knattspyrnu, einnig landsliðsins um tíma og síðar átti hann langan þjálfaraferil, í Keflavík og með landsliðum.
Þjálfaraferill Guðna er magnaður en hann hefur alls komið að 339 verkefnum á vegum landsliða Íslands. Hann er íþróttakennari að mennt, með KSÍ-A þjálfaragráðu, og án nokkurs vafa einn reynslumesti þjálfarinn í íslensku knattspyrnunni. Hann hefur stjórnað flestum landsliðum Íslands, m.a. A-landsliði karla, auk þess sem hann stjórnaði U19 landslið karla um árabil. Guðni var valinn íþróttamaður ársins árið 1973, fyrstur allra knattspyrnumanna. Hann var fyrirliði gullaldarliðs Keflvíkinga á árunum 1969 til 1973 þegar liðið vann Íslandsmeistaratitilinn þrisvar sinnum á fimm árum en hann var einnig í liðinu 1964 þegar liðið varð meistari í fyrsta sinn.
Guðni á að baki 31 A-landsleik sem leikmaður fyrir Ísland á árunum 1967-1973 og var fyrirliði í 7 leikjum.
Skagamaðurinn Jón Gunnlaugsson var einnig sæmdur þessari nafnbót við sama tækifæri. Heiðurskross er æðsta heiðursmerki KSÍ og veitist aðeins undir alveg sérstökum kringumstæðum þeim, sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn, segir á heimasíðu KSÍ.
Gömul mynd af Íslandsmeisturum Keflavíkur 1973 en Guðni var fyrirliði liðsins.