Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Guðmundur vann upp forskot Davíðs og sigraði hjá GS
Mánudagur 10. júlí 2006 kl. 11:29

Guðmundur vann upp forskot Davíðs og sigraði hjá GS

Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Heiða Guðnadóttir urðu klúbbmeistarar GS 2006.

Guðmundur vann upp fimm högga forskot Davíðs Jónssonar og háðu þeir harða baráttu í lokahringnum og Ólafur  Hreinn Jóhannesson var aldrei langt undan heldur en þeir þrír skipuðu lokahollið í Leirunni í dag. Guðmundur tók strax tvö högg á fyrstu þremur holunum og vann síðan tvö til viðbótar á fyrri níu holunum og minnkaði þannig forskotið í eitt högg.

Fyrir 14. braut var munurinn aftur tvö högg en á þeirri braut vann Guðmundur eitt högg með fugli, Davíð gerði síðan slæm mistök á 15. braut þar sem hann tapaði 2 höggum og á 16. holu fékk Guðmundur fugl þegar hann setti niður langt pútt. Davíð vann högg til baka á 17. braut og fyrir síðustu holuna munaði því aðeins höggi á þeim félögum. Davíð sló annað höggið á 18. sem er par 5 í glompu og var þar um 80 metra frá holu. Hann hitti ekki höggið vel og þurfti annað til að komast upp úr. Guðmundur Rúnar var á góðum stað og tryggði sér meistaratitilinn annað árið í röð hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Hann lék feikna vel í frábæru veðri og kom inn á einu höggi undir pari, tveimur betri en Davíð Jónsson sem varð að láta sér lynda annað sætið lék á 6 yfir pari í dag.

“Ég lék vel í dag og þjarmaði að Davíð allan tímann. Það má segja að úrslitin hafi ráðist á 14., 15. og 16. braut þegar ég vann 4 högg af Davíð. Þetta var þó ekki búið þegar hann náði að minnka muninn í eitt hög á 17. braut en ég náði að klára dæmið og það var gaman”, sagði Guðmundur Rúnar Hallgrímsson.

Það var ekki mikil spenna hjá kvenfólkinu þar sem Heiða Guðnadóttir var í sérflokki og sigraði með 19 högga mun.

  Meistaraflokkur karla – úrslit:
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson   77 75 76 71 299
Davíð Jónsson   72 77 74 78 301
Ólafur Hreinn Jóhannsson   71 76 81 74 302
Gunnar Þór Jóhannsson    75 72 84 72 303
Örn Ævar Hjartarson    80 79 73 73 305

  Meistaraflokkur kvenna - úrslit:
Heiða Guðnadóttir    77 77 89 79 322
Heiður Björk Friðbjörnsdóttir   85 80 96 90 351
Magdalena S. Þórisdóttir  91 87 88 92 358

 

 

Mynd/ kylfingur.is: Guðmundur Rúnar og Heiða með verðlaun sín á meistaramóti GS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024