Guðmundur með sigurmark Keflvíkinga í uppbótartíma
Keflavík vann Víking í kvöld 1-2 í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Guðmundur Steinarsson reyndist hetja kvöldsins þegar hann skoraði sigurmark Keflvíkinga úr vítaspyrnu, eftir að brotið hefði verið á Baldri Sigurðssyni. Markið kom á 92 mínútu leiksins. Með sigrinum skaust Keflavík í annað sæti Landsbankadeildarinnar með 14 stig.
Leikurinn í kvöld var hin mesta skemmtun og mættu fjölmargir á völlinn í blíðskaparveðri. Í fyrri hálfleik voru Keflvíkingar sterkari lengst af. Besta færi hálfleiksins fékk Þórarinn Kristjánsson þegar hann slapp einn í gegn en hann kom boltanum ekki framhjá Bjarna Halldórssyni, markmanni Víkinga. Í hálfleik var jafnt 0-0.
Seinni hálfleikur hófst á sprengju þegar Þórarinn Kristjánsson skoraði eftir aðeins 30 sekúndna leik. Næstu mínútur voru Víkingar sterkari en Keflvíkingar náðu fljótlega tökum á leiknum. Þeir sóttu mun meira og sköpuðu sér hættuleg tækifæri. Baldur Sigurðsson átti tvo góða skalla um miðbik hálfleiksins en Bjarni Halldórsson varði frábærlega í bæði skiptin.
Marko Kotilainen átti gott skot beint úr aukaspyrnu á 65 mínútu en Bjarni varði boltann sem fór í þverslána og yfir.
Á 74 mínútu dró til tíðinda þegar víti var dæmt á Keflavík þegar brotið var á sóknarmanni Víkinga í upplögðu færi. Keflvíkingar mótmæltu dómnum harðlega og uppskáru ekkert nema gul spjöld. Mikill tími fór í að röfla í dómaranum og þegar Kekic skoraði úr spyrnunni höfðu liðið tæpar fjórar mínútur frá því dómarinn dæmdi vítið.
Sigurmarkið kom í uppbótartíma þegar brotið var á Baldri Sigurðssyni og víti dæmt. Guðmundur setti boltann örugglega í netið og Keflavík komið 1-2 yfir. Víkingar reyndu án afláts að sækja eftir mark Keflvíkinga en tókst ekki að skora.
Símun Samuelsen, leikmaður Keflvíkinga, sagði að leikurinn hafði verið mjög skrýtin en sigurinn sanngjarn. ,,Þetta var bara mjög skrýtin leikur í alla staði. Við fengum fjölmörg tækifæri til að klára leikinn en nýttum þau ekki en í heildina litið þá var þetta sanngjarn sigur.” Aðspurður hvort að vítið sem Keflavík fékk í endann hafi verið rétt sagði Símun að það hlyti að vera fyrst að dómarinn dæmdi það.
Guðjón Antoníusson var kátur í leikslok. ,,Þetta var naumt í kvöld. Við lentum í óþarfa veseni undir lokin og vorum ekki búnir að nýta færin okkar. En mér fannst við vera betri, vorum meira með boltann og fengum fleiri færi. Eftir að þeir jöfnuðu þá bökkuðu þeir og leyfðu okkur að vera meira með boltann. Við náðum ekki að nýta okkur það nógu vel en sem betur fer fengum við þetta víti undir lokin.”
Stefán Þór Borgþórsson - [email protected]