Guðmundur Leo með fjögur gull á RIG
Reykjavíkurleikarnir í sundi fóru fram í Laugardalslaug um helgina og óhætt er að segja að sundfólk ÍRB hafi staðið sig vel á mótinu. ÍRB vann til fimm gullverðlauna, fjögurra silfurverðlauna og fjögurra bronsverðlauna. ÍRB átti keppendur í 33 úrslitasundum á mótinu og vann til sextán verðlauna í junior-flokki.
Guðmundur Leo Rafnsson var í gríðarlegu stuði á mótinu þar sem hann vann til fjögurra gullverðlauna og einna bronsverðlauna. Í 200 metra baksundi bætti hann mótsmetið um tvær sekúndur og var aðeins 6/100 frá lágmarki á Evrópumeistaramót unglinga.
Eva Margrét Falsdóttir sigraði í 800 metra skriðsundi og Denas Kazulis náði sínu fyrsta landsliðslágmarki þegar hann tryggði sér þátttöku á Norðurlandamóti æskunnar (NÆM) í sumar.
Hörkuárangur á fyrsta sundmóti ársins
Helgina fyrir RIG gerði sundfólk úr ÍRB góða ferð til Danmerkur og keppti var á Lyngby Open. Þar öttu þau kappi við marga af fremstu sundmönnum Dana ásamt sundmönnum frá Svíþjóð, Bretlandi og Nýja-Sjálandi. Liðsmenn ÍRB höfnuðu á palli í tuttugu og eitt skipti en þau unnu fimm gull, tólf silfur og fjögur bronsverðlaun á mótinu. Hörkugóður árangur á fyrsta móti á ársins.