Guðmundur í Keflavík til ársins 2016
Karlalið Keflavíkur í körfubolta samdi í gær við bakvörðinn öfluga Guðmund Jónsson til næstu tveggja ára. Mun hann leika með liðinu út þetta tímabil og næstu tvö tímabil eftir það. Guðmundur hefur verið gríðarlega öflugur í liði Keflavíkur það sem af er vetri en liðið situr á toppi deildarinnar ásamt KR þegar 16 leikjum er lokið.
Frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur en þar kemur einnig fram að Keflvíkingar séu gríðarlega ánægðir eru með að tryggja sér veru Guðmundar hjá liðinu fram að árinu 2016. „Drengurinn er án efa besti varnarbakvörður deildarinnar auk þess að vera ein besta þriggjastigaskytta landsins en í þessum skrifuðu orðum er Guðmundur með hæstu þriggjastiganýtingu allra í Domino´s deildinni - eða 48%. Það sem af er vetri hefur Guðmunur skilað rúmum 14 stigum að meðaltali í leik og 4,5 fráköstum.“