Guðmundur heimsmeistari í fangbrögðum
Njarðvíkingurinn Guðmundur Stefán Guðmundsson gerði sér lítið fyrir og varð heimsmeistari í keltneskum fangbrögðum en keppt var í Englandi um síðustu helgi.
Guðmundur er annar maðurinn utan Englands sem vinnur til þessa titils frá upphafi eða frá 1907 og líklega fyrstur Njarðvíkinga að vinna til heimsmeistaratitils í fullorðinsflokkum. Guðmundur háði harða keppni við 11 sterkustu glímumenn í greininni og stóð uppi sem sigurvegari.
Íslendingum og Njarðvíkingum gekk vel á þessu heimsmeistaramóti í keltneskum fangbrögðum en keppnin stóð yfir í tvo daga. Njarðvíkingar röðuðu sér í verðlaunasæti fyrri daginn. Gunnar Örn Guðmundsson (Njarðvík) varð þriðji í opnum flokki unglinga. Ingólfur Rögnvaldsson (Njarðvík) varð þriðji í -73 kg flokki fullorðinna og Mariam Elsayed Badawy (Njarðvík) varð önnur í -38kg flokki barna. Þá varð Mahmoud Houtre (Njarðvík) þriðji í opnum flokki u12 .