Guðmundur Andri hættur hjá Grindavík
Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Andri Bjarnason er hættur með Grindavík en þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag. Guðmundur Andri hafði tekið ákvörðun um að hætta með liðinu í sumar en ákvað að svo að leika með liðinu út tímabilið en hætta svo. Frá þessu er greint á www.fotbolti.net
Hann hefur ekki enn ákveðið hvar hann leikur fótbolta næsta sumar en hyggst ekki leggja skóna á hilluna. Guðmundur sagði við Fótbolta.net í dag að hann hafi ekki enn rætt við önnur félög en þó væri ljóst að hann yrði ekki með Grindavík næsta sumar.
Guðmundur Andri er 26 ára gamall og á að baki 67 leiki í Landsbankadeild karla og hefur skorað í þeim fjögur mörk. Hann á enn tvö ár eftir af samningi sínum hjá Grindavík.
Hann lék 11 leiki með Grindavík í 1. deildinni í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Auk þess lék hann tvo leiki með liðinu í VISA bikarnum.
VF-Mynd/ [email protected] - Guðmundur Andri í leik með Grindavík gegn Þrótti Reykjavík á síðustu leiktíð.