Guðjón svarar gagnrýni McShane
Það vakti mikla athygi fyrr í vikunni þegar að Paul McShane fyrrum leikmaður Grindvíkinga í Pepsi-deild karla lét stór orð falla í garð Guðjóns Þórðarsonar þjálfara Grindvíkinga. Paul sagði í færslu á facebook að Guðjón væri versti þjálfari sem hann hefði komist í kynni við á ferli sínum og gangrýndi hann þjálfunaraðferðir og ákvarðarnir þjálfarans eins og sjá má hér.
Guðjón hefur svarað ummælum Paul í ýmsum fjölmiðlum í kjölfarið. Hann átti samtal við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu í dag þar sem hann svaraði hástöfum.
„Ég vissi ekki að Paul væri svona djöfulli gamall, að hann væri frá miðöldum. Ég vissi að hann væri orðinn gamall og lúinn en ég vissi ekki að hann væri orðinn svona gamall,“ sagði Guðjón meðal annars og sagði að leikmaðurinn hefði átt erfitt með að koma sér í form.
Í Morgunblaðinu í dag segir Guðjón svo að miðað við hvernig Paul hafi hagað sér þann tíma sem hann var hjá Grindavík þá komi honum framganga hans ekkert á óvart. „Það voru allir að gefast upp á honum. Þetta var maður sem hafði engan áhuga á að koma sér í stand og efaðist um allt sem gert var. Hann bað um að vera leystur undan samningi og stjórnin var ekki í neinum vafa með það að leysa hann undan samningi,“ sagði Guðjón við Morgunblaðið.
Guðjón segir einnig í áðurnefndu viðtali á X-inu að Þorsteinn Gunnarsson fyrrum formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur hafi boðið sér að taka við liðinu síðastliðið haust. Þorsteinn hætti sem formaður á svipuðum tíma og Guðjón tók við og lýsti því yfir að hann væri mótfallinn ráðningu hans.
„Mér þótti það skondið, sérstaklega með tiliti til þess að hann sendi mér póst og bauð mér starfið.“
Guðjón segir að Þorsteinn hafi einnig boðið sér að taka við liði Grindavíkur vorið 2010 þegar Ólafur Örn Bjarnason tók við af Luka Kostic. „Þegar Ólafur Örn var ráðinn þá var ég á kaffihúsi niðri í bæ þegar hann hringdi í mig og bauð mér starfið. Þetta hefur ekkert komið fram áður.“