Guðjón í gang!
Íslandsmeistarar Keflvíkinga unnu langþráðan sigur á heimavelli gegn KR 101-98 sl. sunnudag og veittu áhangendum von um betri tíð framundan. Það var stórskyttan Guðjón Skúlason sem öðrum fremur kom lagi á leik Keflvíkinga. Hann hóf leikinn með stórskotahríð utan þriggja stiga línunnar og skoraði 6 slíkar ífyrri hálfleik. Meistararnir hófu leikinn á góðum varnarleik og börðust fyrir hverju varnarfrákasti. Fráköstin sköpuðu hraðaupphlaup. Í hraðaupphlaupunum opnaði hættan af Guðjóni vörn KR-inga fyrir öðrum leikmönnum liðsins sem nutu frelsisins og léku eins og beðið hefur verið eftir í bítlabænum og 58-43 forskot í hálfleik síst of lítið. Svæðisvörn Vesturbæinga hægði á leiknum í seinni hálfleik og hægt og rólega skriðu þeir röndóttu aftur inn í leikinn en “ skriðdrekinn” Gunnar Einarsson gerði út um vonir þeirra með þriggja stiga körfu og tryggði fyrsta sigurinn á 21.„Ég vona að við eigum eitthvað inni. Leikmenn gerðu það sem þeir áttu að gera í þessum leik og því spilaði liðið sem heild betur. Það er of snemmt að segja til um hverjir enda á toppnum í enda veturs“, sagði Guðjón Skúlason, hetja Keflvíkinga eftir leikinn.