Guðjón fór holu í höggi á nýju brautinni
Guðjón Einarsson golfari og fyrrverandi skipstjóri og vallarstjóri á Húsatóftavelli gerði sér fyrir og fór holu í höggi á Meistaramóti GG í gær og það á einni af nýju brautunum. Þetta er í fyrsta skipti á golfferli Guðjóns sem hann afrekar þetta.
Guðjón fór 7. braut holu í höggi en brautin er ein af fimm nýjum brautum á vellinum sem er nú orðinn 18 holur. Brautin hafði bara verið í notkun í viku þegar Guðjón sló draumahöggið. Hann var að vonum ánægður og brosti hringinn. Sjöunda brautin er 120 metra löng á gulum teigum og par 3.