Guðjón Árni ráðinn afreksþjálfari hjá Njarðvík
Guðjón Árni Antoníusson hefur verið ráðinn afreksþjálfari hjá knattspyrnudeild Njarðvíkur þar sem hann kemur til með að hafa yfirumsjón með skipulagningu, utanumhaldi og afreksþjálfun einstaklinga í elstu flokkum félagsins.
Guðjón Árni býr yfir mikilli reynslu og þekkingu sem leikmaður og einnig sem þjálfari. Guðjón Árni er íþróttafræðingur og hefur þjálfað meistaraflokk Víðis og 2. flokk karla hjá Keflavík, verið yfirþjálfari Reynis/Víðis og styrkarþjálfari í Metabolic í Reykjanesbæ. Á sínum leikmannaferli lék hann með Víði, Keflavík og FH þar sem hann hefur bæði orðið Íslands- og bikarmeistari auk þess að eiga leik með A landsliði Íslands.
Með ráðningu Guðjóns Árna er stigið skref í átt að eflingu á afreksstarfi félagsins. Markmið afreksþjálfara verður að móta knattspyrnumenn framtíðarinnar. Þá er einnig hlutverk afreksþjálfara að vinna náið með öðrum þjálfurum félagsins.
Frá þessu er greint á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Njarðvíkur í dag.