Guðjón Árni gæti þurft að hætta í fótbolta
Hefur ítrekað fengið höfuðhögg
Garðbúinn Guðjón Árni gæti þurft að leggja skóna á hilluna eftir að hafa fengið nokkuð höfuðhögg. Guðjón leikur með FH í Pepsi-deildinni í fótbolta en hann lék um árabil með Keflvíkingum.
Í samtali við fótbolta.net sagði Guðjón að hann yrði að hvíla eins lengi og hann hefði einkenni höfuðmeiðsla.
Guðjón Árni fékk höfuðhögg á æfingu í maí og hefur ekkert spilað síðan þá. Guðjón fékk einnig nokkur höfuðhögg í fyrrasumar og spilaði einungis fimm leiki þá vegna höfuðmeiðsla.
,,Ég er góður dags daglega en þegar ég fer að hreyfa mig þá fæ ég svima, ógleði og höfuðverk,“ en Guðjón segir mögulegt að hann þurfi að leggja skóna á hilluna. „Ég er ekki búinn að taka lokaákvörðun en þetta lítur ekki vel út. Það er allavegana löng hvíld framundan. Ég vil ekki tefla á tvær hættur. Það er hægt að lifa með einhverjum ónýtum liðböndum en það er ekki spes að vera ekki með heilann ekki í lagi,“ sagði Guðjón við fótbolta.net.