Guðjón Árni fer frá Keflavík - líklega til FH
Keflvíkingar sjá á eftir fyrirliða sínum, varnarjaxlinum Guðjóni Árna Anóníussyni sem hefur ákveðið að reyna fyrir sér með öðru liði í Pepsi-deildinni í knattspyrnu á næsta ári. FH-ingar hafa boðið bakverðinum samning og samkvæmt áreiðanlegum heimildum VF er líklegt að Guðjón fari yfir til Hafnarfjarðarliðsins. Ekki náðist í Guðjón í dag til að fá þetta staðfest.
Guðjón Árni er Garðmaður að upplagi og lék með Víðismönnum upp í 2. flokk en eftir eitt ár í þeim flokki með þeim bláu á Garðskaga flutti hann sig til Keflavíkur. Guðjóni hefur gengið vel í bítlabænum og verið einn af lykilmönnum Keflavíkur undanfarin ár. Það verður því blóðtaka fyrir Keflavík að missa Guðjón. Reynsla hans hefði verið góð fyrir yngri leikmenn liðsins undir stjórn nýs þjálfara á næsta ári. Samkvæmt heimildum VF hefur FH boðið leikmanninum mun betri samning en honum var boðið hjá Keflavík en einn þáttur sem spilar inn í vistaskipti Guðjóns er að hann er í námi í Háskóla Íslands í Reykjavík.