Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Guðfaðir grindvískrar knattspyrnu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 27. maí 2023 kl. 06:02

Guðfaðir grindvískrar knattspyrnu

„Ég vandi mig fljótt á, að tala alltaf við mann númer eitt hjá fyrirtækinu, ég skyldi alltaf komast alla leið upp á toppinn til að bera upp mitt erindi fyrir knattspyrnudeild UMFG, það gekk alltaf upp,“ segir Jónas Karl Þórhallsson sem af mörgum er kallaður guðfaðir grindvískrar knattspyrnu.

Jónas er fæddur og uppalinn í Sandgerði. „Ég er fæddur árið 1956, ólst upp í norðurbænum svo það sé skýrt tekið fram en það var alltaf mikill rígur á milli norðurhluta Sandgerðis og suðurhlutans.

Æskuminningarnar snúast mikið um fótbolta og ég var snemma byrjaður að vinna eins og tíðkaðist þá. Ég hjólaði allt en skólinn var í suðurhlutanum, það var dágóður spölur fyrir mig að komast í skólann en ég hjólaði alla daga, alveg sama hvernig viðraði. Eftir að ég flutti til Grindavíkur, og hóf störf árið 1981 á skrifstofunni hjá Þorbirni, hef ég alltaf hjólað í vinnuna. Líklega er ég haldinn einhverri hjólafíkn en ég hef alltaf haft áhuga á hreyfingu. Ég æfði og keppti með Reyni Sandgerði upp alla yngri flokka og árgangurinn var mjög góður, við spiluðum t.d. úrslitaleik 1970 á Melavellinum við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í 4. flokki. Við vorum í riðli með Breiðablik, FH, Keflavík, Stjörnunni  og öllum sterkustu liðunum og unnum t.d. Víði Garði 14:0 og ég skoraði sjö mörk í leiknum en ég var framherji og skoraði mikið af mörkum. Árið 1973 var ég byrjaður að spila með meistaraflokki og við spiluðum úrslitaleik við Ísafjörð um sæti í næstefstu deild, sömuleiðis á Melavellinum. Töpuðum 1:0. Ísfirðingar geta þakkað elsta og besta leikmanninum á vellinum, Birni Helgasyni frænda mínum sem þá var 38 ára gamall. Það var mikil hefð fyrir fótbolta í Sandgerði, miklu meiri en í Grindavík en ég sá það þegar ég flutti hingað árið 1974. Líklega kom þessi sterka fótboltahefð frá Færeyjum en það voru mikil vinatengsl við VB í Færeyjum og margir flottir fótboltamenn fluttu þaðan til Sandgerðis. Svo skemmdi líka ekki fyrir hvað Keflavík var nálægt en ég hafði gífurlegan áhuga á fótbolta, horfði á margar æfingar hjá Keflavík þegar Joe Hooley þjálfaði liðið 1973 en Keflvíkingar voru með yfirburðarlið á þessum tíma. Þvílíkur áhugi, ég tók rútuna sem þá gekk á milli Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis og horfði á þessa snillinga æfa en þarna er ég fimmtán, sextán ára gamall. Á þessum tíma voru komin flóðljós á malarvöllinn í Keflavík og við spiluðum marga æfinga- og mótsleiki í yngri flokkum yfir veturinn í misgóðum veðrum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Fjórði flokkur Reynis, Jónas er annar frá vinstri í neðri röð.

Örlögin drógu Jónas til Grindavíkur

Jónas fékk ungur áhuga á smíðum og hjálpaði Binna bróður sínum (Benóný Þórhallsson, útgerðarmaður í BESA sem á Dúdda Gísla GK-48) að byggja hús í Grindavík þegar örlögin bönkuðu upp á. „Binni bróðir var að byggja hús í Grindavík upp úr 1970 og ég hjálpaði honum, var því mikið í Grindavík á þeim tíma og kynntist  konunni minni, Dröfn Vilmundardóttur 1973. Ég flutti til Grindavíkur 1974 og við bjuggum fyrst hjá tengdaforeldrum mínum en við festum síðan kaup á lóð á Selsvöllum 20 árið 1975, byrjuðum að byggja vorið 1976 og fluttum inn í desember 1977. Ég var að aðstoða smiðina, lét aðra sjá um pípulögn, rafmagn og múrverk. Um leið og ég flutti til Grindavíkur byrjaði ég að æfa með Grindavík og vann þá við smíðar á sumrin, fyrst hjá Þórði Waldorff og svo hjá Guðmundi Ívarssyni sem síðar stofnaði trésmíðaverkstæðið Grindina ehf. Á þeim tíma tíðkaðist ekki að æfa fótbolta yfir veturinn nema innanhúss á parketi. Ég var á sjónum allt til ársins 1979. Byrjaði á sjó haustið 1973 á Ljósfara ÞH 40 með Ómari Einarssyni frænda mínum, fór síðan á Grímseying GK 605 með Willard Fiske Ólasyni, var svo þrjár vertíðir á loðnu með Hrólfi Gunnarssyni á aflaskipinu Guðmundi RE 29, tók eina vertíð 1979 á Kóp GK 175 sem annar stýrimaður en þar var Jóhannes Jónsson skipstjóri. Vertíðin gekk vel og við vorum aflahæstir. Þegar ég hugsa til baka þá skil ég nú ekki alveg hvernig ég gat þetta, bæði unnið við smíðar og byggt eigið hús, spilað fótbolta, verið á sjó á veturna, eignast Ástrúnu mína árið 1976. Þetta hefði ekki verið hægt nema eiga yndislega konu en hún Dröfn mín var einstök kona.

Eins og ég nefndi, hefð fyrir fótbolta í Grindavík var ekki mikil þegar ég flutti þangað og við þurftum að gera allt sjálfir má segja, merkja völlinn o.s.frv. en Grindavík var á þessum tíma í SV-riðli þriðju deildarinnar. Við vorum ekkert sérstaklega góðir þegar ég kom en ég var heppinn því það var fullt af ungum og efnilegum leikmönnum að koma upp, bræðurnir Siggi, Jobbi og Einar Jón, Krilli, Raggi Eðvalds, Pétur Páls, Gústi Ingólfs, Steini Símonarson, Svanur Sigurðsson o.fl. Við urðum betri og betri og árið 1977 tók Haukur Hafsteinsson við þjálfun liðsins og Sigurður G. Ólafsson stjórnaði deildinni og við komumst alla leið í úrslit. Haukur kom með mikla fagmennsku úr Keflavík og við nutum góðs af því. Það varð til góður kjarni í Grindavík á þessum tíma og við vorum alltaf í baráttunni um að komast upp í næstefstu deild. Við vorum sömuleiðis mjög góðir í innanhússfótbolta en hann var mjög vinsæll á þessum tíma. Mér er minnisstæður úrslitaleikur í Laugardalshöllinni 1980 við Víði Garði um að komast í efstu deild en höllin var full, rúmir þrjú þúsund áhorfendur því næsti leikur á eftir var úrslitaleikur á milli ÍA og Vals um Íslandsmeistaratitilinn. Ég sver það, ég skalf á hnjánum rétt áður en flautað var til leiks en um leið og leikurinn byrjaði þá róuðust taugarnar. Ég var aftastur og skoraði glæsilegt mark með langskoti og við unnum 2:1 og komumst upp í efstu deild. Ferli mínum sem leikmaður lauk 1984 en þá var ég einungis tuttugu og átta ára gamall. Ég hafði meiðst illa í Garði 1976, sleit krossbönd í hné og jafnaði mig í raun aldrei á þeim meiðslum og það sem fór líklega endanlega með mig var mjög stíft undirbúningstímabil hjá Kjartani Mássyni eftir áramót fyrir 1983 tímabilið. Við æfðum þá m.a. í Njarðvík, byrjuðum á útihlaupi frá íþróttahúsinu í Njarðvík út að þar sem Duus-hús er núna, hlupum alla Hafnargötuna og Kjartan keyrandi fyrir framan. Svo var lyft og að lokum tekinn innanhússfótbolti kl. 23:30 og spriklað fram á nótt. Hnéð hreinlega þoldi ekki þetta álag og ég neyddist til að leggja skónum eftir næsta tímabil, 1984. Ég var ánægður með ferilinn, eitt af því eftirminnilegasta var þegar við Bjarni Ólason, markmaður, fórum haustið 1981 og æfðum með Arsenal í Englandi. Þarna vorum við í einn mánuð, æfðum með varaliðinu en borðuðum með aðalliðinu í hádeginu en þarna voru miklar stjörnur undir stjórn Terry Neill. Ég man að enska landsliðið, sem var að undirbúa sig fyrir mikilvægan leik við Ungverja um hvort liðið kæmist á HM ‘82 á Spáni, æfði á æfingasvæði Arsenal og við gátum fylgst með. Þetta var mikið ævintýri. Ég reyndi tvisvar sinnum að fá Terry Neill til að þjálfa Grindavíkurliðið með aðstoð frá Halldóri Einarssyni í Henson en Terry var þá kominn í fjármálaviðskipti,“ segir Jónas.

Lið meistaraflokks Grindavíkur árið 1980. Jónas er fjórði frá vinstri í efri röð.

Stjórnarmennskan

Jónas hafði komið að stjórnarmennsku hjá knattspyrnudeild UMFG á meðan hann var ennþá að spila. „Árið 1976 var síðasta útihátíðin við Svartsengi haldin og þá var ég byrjaður að vinna með Gunnari Tómassyni, formanni UMFG, og Boga Hallgríms en þetta var áður en deildunum var skipt upp. Fram að þeim tíma hafði UMFG séð um allar greinar en það var mikið gæfuspor þegar hver deild varð sjálfstæð og réði sínum málum. Ég var fljótlega kominn með puttana í starfið því ég eyddi miklum tíma með Sigurði G. Ólafssyni sem stjórnaði deildinni og ég kom svo inn í stjórn knattspyrnudeildar árið 1979, var ritari til að byrja með.

1979 tók ég að mér sölu á getraunum og salan fór upp í hæstu hæðir, um 34 þúsund raðir. Ég setti upp sölukerfi og fór í öll fyrirtæki, setti getraunaseðla í verslanir og linnti ekki látum fyrr en flestir voru búnir að kaupa seðil. Ég var að smíða á þessum tíma og var alltaf með seðlana á mér, þegar ég hitti einhvern seldi ég viðkomandi seðil. Svo þurfti að gera þetta allt saman upp á hverju fimmtudagskvöldi, allt þurfti að stemma og þetta var mikil vinna. Svo þurfti að koma útfylltum seðlum ásamt peningunum til Íslenskra getrauna á hverjum föstudegi í Reykjavík, þessu var pakkað inn, teipað yfir og sent með rútunni frá versluninni Báru. Svona sá ég um þetta í fimm ár og getraunirnar voru langstærsti tekjuliðurinn okkar. Ég lét smíða tvo stóra auglýsingabúkka með skiltum beggja megin sem sýndu þegar potturinn var tvö- eða þrefaldur.

Ég var í stjórn þegar ég var leikmaður, hætti að spila haustið 1984 og tók svo við formennsku árið 1986. Líklega er það eftirminnilegasta árið mitt sem formaður því það ár byggðum við bæði Gula húsið og tyrfðum fyrsta grasvöllinn sem í dag er æfingavöllur. Reyndar vildi ég helst ekki vera formaður en ég var mjög gæfusamur með mennina sem voru með mér í stjórn. Árið 1986 var ég formaður, Gústi Ingólfs varaformaður, Pétur Páls ritari, Hermann Guðmunds gjaldkeri og Raggi Ragg og Hilmar Knúts meðstjórnendur. Svo voru fleiri með mér, Gunnar Vilbergs, Jón Guðmunds, Siggi Gunn, Bjarni Andrésar, Jón Þór, Jón Gísla svo einhverjir séu nefndir og þessi hópur stýrði málum næstu árin. Við vorum mjög samheldnir og líklega var það metnaðurinn sem dreif okkur áfram. Það var gífurleg gleði sem fylgdi því að komast loksins upp úr gömlu 3. deildinni en það tókst í lokaleiknum á grasvellinum okkar árið 1989, undir stjórn Guðjóns Ólafssonar, frænda míns úr Sandgerði, í suðvestan fimmtán vindstigum og mígandi rigningu.“

Gunnar Vilbergsson, Dagbjartur Einarsson og Jónas á góðri stundu í gula húsinu, þegar Dagbjartur var gerður að stuðningsmanni númer eitt hjá knattspyrnudeild UMFG.

Upp í efstu deild og bikarúrslit árið 1994

Jónas er á því að tímabilin 1989 og 1994, þegar Grindavík vann sig upp um deild, og 2000, þegar fyrsti farseðillinn í Evrópukeppni kom, sé hápunkturinn á stjórnarferlinum. „Okkur gekk upp og ofan fyrstu árin í næstefstu deild en ég fann að við vorum á réttri leið. Við stigum stórt gæfuspor árið 1992 þegar Milan Jankovic kom og spilaði með okkur og tveimur árum síðar réðum við fyrrum liðsfélaga hans hjá Osjek í Króatíu, Luka Kostic, sem spilandi þjálfara. Luka hafði komið til Íslands nokkrum árum fyrr sem leikmaður, fyrst með Þór Akureyri og svo með ÍA þar sem hann sló algjörlega í gegn. Ég vissi að hann væri að verða kominn á aldur og hitti hann á hótelherbergi á Hótel Íslandi fyrir lokahóf Íslandsmótsins 1993 en þá var hann kosinn leikmaður ársins. Hann sýndi strax áhuga og kom til Grindavíkur nokkrum vikum seinna og við náðum samningum. Kóli eins og hann var kallaður kom eins og stormsveipur inn í fótboltann í Grindavík og fljótlega sáum við að við myndum vera með sterkt lið þetta sumar enda kom það á daginn. Við unnum 2. deildina nokkuð örugglega og fórum eftirminnilega í gegnum hverja umferðina af fætur annarri í bikarkeppninni eftir vítaspyrnukeppni og mættum að lokum KR-ingum á Laugardalsvellinum í úrslitaleik. Við þurftum því miður að lúta í lægra haldi en mikið ofboðslega var þetta skemmtilegt tímabil og líklega það eftirminnilegasta sem ég hef upplifað. Kóli var bara með okkur eitt tímabil í viðbót. Við héldum sæti okkar í efstu deild nokkuð örugglega og það voru mikil vonbrigði þegar hann yfirgaf okkur fyrir KR en lífið er of stutt til að vera í leiðindum. Við Kóli hittumst einhverjum árum síðar og sættumst. Eftir að hann fór tók Gummi Torfa við okkur og var í þrjú ár og oft skall hurð nærri hælum, við björguðum okkur tvisvar sinnum í lokaleik Íslandsmótsins en mikið ofboðslega var mikið stuð á lokahófinu þá um kvöldið! Janko lagði skóna á hilluna haustið 1998 og tók við þjálfun liðsins 1999 og við náðum fljótlega góðum árangri, lékum alls sex leiki í Evrópukeppni, fjóra leiki undir stjórn Janko og tvo leiki undir stjórn Bjarna Jóhannssonar. Svo þegar öllu er á botninn hvolft er ég stoltur af árangri okkar og allri uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ég tók mér einhverja pásu frá stjórnarstörfum, fór í varastjórn og kom svo aftur en sagði svo alveg skilið við formennsku í lok apríl 2018 eftir framhaldsaðalfund. Ég fylgist að sjálfsögðu áfram með mínum mönnum og mæti á völlinn. Ég er með stórt Reynishjarta og hef einnig verið að hjálpa til hjá mínu uppeldisfélagi, Reyni Sandgerði,“ segir Jónas.

Á myndinni vinstra megin er Jónas í leik með Grindavík. | Jónas var kosinn besti leikmaður Grindavíkur árið 1981. Hægra megin er hann að afhenda Guðmundi Kristjánssyni, einum þekktasta útgerðarmanni landsins, sömu nafnbót fyrir árið 1982.

Hvað hefði betur mátt fara?

„Ef ég á að nefna eitthvað sem mér finnst gagnrýnivert, er það viðhorf Grindavíkurbæjar gagnvart fótboltanum. Það hefur mikið breyst frá því að Eðvarð Júlíusson var forseti bæjarstjórnar á uppbyggingartíma okkar 1986. Hann sagði þessi orð: „Þennan eldmóð má ekki slökkva!“ Ég hef lengi haldið því fram að bærinn geti gert betur fyrir knattspyrnudeildina. Það er eins og stjórnendur bæjarins átti sig ekki á hversu miklu starfsemin skilar til baka í formi útsvars, svo ég tali nú ekki um forvarnargildið. Við höfum alltaf verið með allar launagreiðslur uppi á borðum, launaframtalið er um 100 milljónir og því skilar útsvar sér til baka til bæjarins. Ég hefði viljað sjá miklu meiri framkvæmdir við fótboltavöllinn. Hópið er ekki með búnings- og klósettaðstöðu og starfsemin í Hópinu er á undanþágu vegna þess að hreinlætisaðstöðu vantar. Við þurfum að láta gesta okkar fara á klósett í gámum á leikjum, það er nöturleg staðreynd finnst mér. Ég, ásamt öllum formönnum deilda UMFG, var ekki sammála byggingunni á félagsaðstöðu UMFG á sínum tíma. Af hverju var þetta ekki gert almennilega og í samráði við deildir UMFG? Tvær pínulitlar skrifstofur ásamt litlum sal leysti engan vanda knattspyrnudeildar. Félagsheimilið Festi var gefið án samþykkis allra deilda UMFG sem átti 20% í Festi og í staðinn var byggt sýnishorn af sal (Gjáin) sem á að sjá um alla viðburði í sorg og gleði fyrir íbúa Grindavíkur. Við áttum að halda Festi og stækka félagsheimilið, byggja við félagsheimilið, aðstöðu fyrir bæjarskrifstofur, bókasafn og tónlistarskóla. Þetta var allt teiknað þegar Jóna Kristín var bæjarstjóri. Ég vildi sjá bæinn byggja sunnanmegin við aðalvöllinn, byggingu sem við létum teikna 2016 sem tengist stúkunni og Hópinu og núverandi búningsklefum. Í þessari aðstöðu hefði verið hægt að leysa vanda ótal greina, t.d. aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun, golfhermi o.fl. Síðast en ekki síst átti þetta að leysa húsnæðisvanda leikmanna knattspyrnu- og körfuknattleiksdeilda en báðar deildir hafa þurft að eyða miklum peningum í húsaleigu á hverju ári. Ég hef stundum verið sakaður um að vera of stórhuga en í mínum huga þýðir ekkert annað. Það er bara ein leið, alla leið! Þangað stefndi ég. Úr neðstu deild með einn malarvöll, upp í efstu deild og Evrópukeppni með aðstöðu sem knattspyrnudeildin byggði upp í sjálfboðavinnu ásamt bæjaryfirvöldum og styrktaraðilum. Fótboltinn hefur alltaf þurft að berjast fyrir bættri aðstöðu. Við þurfum að fá til baka 100% virðisaukaskatt af vinnu og efni frá ríkinu vegna uppbyggingu íþróttamannvirkja. Hér eru hugsjónir, lýðheilsa og almannaheill undir. Hver getur verið á móti þeim gildum? Ríkisstjórnin samþykkti nýlega frumvarp til að hækka endurgreiðslu af framleiðslukostnaði til kvikmyndaframleiðenda upp í 35%. Hver er munurinn á þessum tveim málum?

Jónas við teikningar sem gerðar voru árið 2016, af uppbyggingu við knattspyrnuvöllinn.

Í dag eru nágrannar okkar í Reykjanesbæ í sóknarhug og ætla að byggja upp fyrir milljarða við Reykjaneshöllina, einnig eru mikil áform í Suðurnesjabæ. Á sama tíma forðast bæjarfulltrúar Grindavíkurbæjar að eiga samtal við þá sem hafa reynslu og þekkingu á rekstri sjálfboðastarfs. Í dag eru glæpagengi og eiturlyf að vaða yfir okkar samfélag. Íþróttir eru sverð og skjöldur til varnar þeirri vá. Grindavík á tvær skrautfjaðrir sem seint verða af samfélaginu teknar. Það er annars vegar sjómennska, fyrr og nú, og hins vegar öflugur íþróttabær. Íþróttalíf blómstar ekki af sjálfu sér og þá þarf góð aðstaða að vera til staðar. Aðstaða sem laðar að og heldur í fagfólk, aðstaða sem um leið elur upp fagfólk.“

Dröfn var einstök kona – framtíðin

Það var ekki hægt að enda viðtalið við þessa goðsögn án þess að ræða um lífsförunaut Jónasar en Dröfn Vilmundardóttir þurfti því miður að játa sig sigraða í baráttunni við krabbamein en hún lést þann 13. janúar 2023. „Dröfn stóð þétt við hliðina á mér allan tímann. Ég hefði aldrei getað áorkað því sem ég náði að áorka nema með fullum stuðningi hennar. Gleymum því líka ekki að ég fluttist til Grindavíkur vegna hennar, ég kynntist henni þegar ég var að hjálpa Binna bróður að byggja. Með okkur tókust ástir og við litum aldrei um öxl. Eignuðumst þrjú yndisleg börn, Ástrún fæddist árið 1976, Gerður Björk árið 1982 og Vilmundur árið 1988, auk þess eru barnabörnin orðin sjö. Dröfn var mér alltaf stoð og stytta í öllu tengdu fótboltanum. Þegar við vorum að spila á gamla malarvellinum og bílarnir voru á hliðarlínunni þá voru Dröfn og aðrar eiginkonur leikmanna að selja kaffi inn í bílana og þegar Gula húsið opnaði 1986 voru ófáar vinnustundir þessara frábæru kvenna. Við skipulögðum hlutina þannig að það voru alltaf konur í Gula húsinu. Þegar voru æfingar hjá meistaraflokknum voru þær klárar með kaffi og veitingar eftir æfinguna og svo ég tali nú ekki um á leikdegi, alltaf te og rist fyrir leik og svo alvöru máltíð eftir leikina. Þetta hefði ekki verið hægt án aðkomu þessara stórkostlegu kvenna og sá Dröfn lengi vel um að halda utan um vaktirnar og manna þær. Auðvitað fór ofboðslegur tími hjá mér í allt tengt fótboltanum og aldrei heyrði ég kvart eða kvein frá Dröfn minni. Hún studdi mig í einu og öllu og ef eitthvað lenti aukalega á henni varðandi heimilishaldið, einfaldlega bætti hún við tönn. Við vorum alltaf mjög samstíga og hún var alltaf inni í öllum málum, t.d. hvort við værum að spá í þessum eða hinum leikmanninum.

Auðvitað eru straumhvörf í mínu lífi núna, að missa klettinn minn en svona er einfaldlega lífið, það þýðir ekkert að leggjast í kör og væla. Ég ætla að jafna mig á þessu og svo heldur lífið áfram. Mig langar að búa í heitara loftslagi á veturna og sé fyrir mér að kaupa hús á Spáni ásamt börnunum mínum og verja vetrinum þar. Það er mikil hjólamenning á Torrevieja-svæðinu, þar er fólk að hjóla upp í fjöllin, ég hef gaman að hjóla og fara í fjallgöngur. Ég hef alveg látið golf eiga sig en ákvað að prófa aðeins síðasta sumar, ég er alveg viss um að golfið muni henta mér vel og stefni á að ná tökum á þessari skemmtilegu íþrótt.

Ég reyni ávallt að hafa gaman af því sem ég tek mér fyrir hendur og hafa nóg að gera. Við eigum að þakka fyrir hvern dag sem við fáum að lifa hér á jörðu og sjá björtu hliðar lífsins með kærleika í hjarta.“

Jónas með Dröfn sér við vinstri hlið, Helga Björns næstan sér til hægri og annan frænda þar við hliðina, Þórhall Benónýsson.

Farðu alla leið

„Ég verð í lokin að minnast á tónlistaráhuga minn en þjóðþekktir tónlistarmenn eru í báðum ættliðum. KK (Kristján Kristjánsson í KK sextett) og pabbi, Þórhallur Gíslason, voru systrasynir, fæddir í Syðstakoti rétt sunnan við Sandgerði. Í móðurætt, (móðir mín Ástrún Jónasdóttir er frá Súðavík) eru Björn Helgason, fyrsti landsliðsmaður Ísfirðinga í fótbolta, og ég systrasynir en Björn er pabbi Helga Björns. Einnig eru Halldór Gunnar Pálsson, Fjallabróðir, og Reynir Guðmundsson, söngvari í Saga Class, náskyldir mér. Tónlist má ekki vanmeta og hefur alltaf verið stór partur af starfsemi knattspyrnudeildarinnar. Við höfum haldið fjáröflunarböll, lokahóf, herrakvöld, Bacalao-mót og Þorrablót. Þá hefur komið sér vel að þekkja til tónlistarmanna og Helgi frændi minn hefur í ófá skiptin komið og skemmt. Ætli sé ekki við hæfi að ég endi þetta viðtal á broti úr texta frá Helga frænda: „Farðu alla leið!“