Guðbjörn fór holu í höggi í Vilhjálmsbikarnum í golfi
Í fyrsta skipti í níu ára sögu Vilhjálmsbikarsins í golfi í Leirunni fór þátttakandi holu í höggi í mótinu. Guðbjörn Garðarsson náði draumahögginu á 16. braut þegar kúlan fór rakleiðis beint í holuna. Guðbjörn lýsti högginu í mótslok og sagði: „Ég hitti kúluna ekki vel en hún fór ofan í holuna. Þetta var mikil heppni“.
Þetta dugði honum þó ekki í verðlaunasæti en hann lék með Magnúsi bróður sínum. Hann ætti þó að geta boðið bróður sínum og kannski fleirum í mat því hann fékk stórt og mikið grill frá Nettó í vinning. Hefði Guðbjörn náð þessu afreki í fyrra hefði hann fengið forláta mótorhjól í vinning. Guðbjörn var þó glaður með grillið og fagnaði með stæl þegar kúlan rann ofan í holuna þannig að flestir á vellinum tóku eftir því.
Fyrirkomulagið í Vilhjálmsbikarnum er þannig að tveir leika saman í liði og slá annað hvort högg eftir að hafa valið betra uppshafshögg. Það var enginn annar en hinn kunni körfuboltadómari og kylfingur Kristinn Óskarsson og félagi hans, Hörður Hauksson sem léku best allra á 64 höggum nettó. Í öðru sæti var fyrrverandi golfkennari úr Leirunni, Ólafur H. Jóhannesson og Gunnar Gunnarsson. Þriðja parið voru feðgarnir Friðjón Einarsson og Samúel sonur hans.
Fjöldi vinninga voru í mótinu en alls mættu 140 manns til leiks. Mótið hefur verið eitt það vinsælasta í Leirunni undanfarin ár og er haldið til minningar um Vilhjálm Vilhjálmsson sem lést aðeins tuttugu ára gamall. Hann var góður kylfingur og starfaði á Hólmsvelli. Fjölskylda hans hefur haldið utan um mótið og fengið marga góða aðila með sér í lið sem hafa stutt það með vinningum og öðru. Ágóði af mótshaldinu undanfarin ár hefur farið í að byggja nýja brú yfir vatnsrásina á 16. braut í Leirunnni.
Aðstandendur mótsins, fjölskylda Vilhjálms heitins, sem stóð að mótinu, vilja þakka öllum sem tóku þátt eða aðstoðuðu með framlagi eða vinningum.
Það er mikið fjör í Leirunni í þessari viku en nú fer fram meistaramót klúbbana. Um 200 manns taka þátt í Leirunni en einnig er góð þátttaka í öðrum klúbbum á Suðurnesjum.
Kristinn og Hörður með Vilhjálmsbikarinn á milli sín en hann er geymdur í golfskálanum í Leiru. Þeir fengu báðir helgarleigu á húsbíl frá Bílaleigunni Geysi í verðlaun. Að neðan má sjá inn í golfskálann að móti loknu þegar verðlaunaafhending fór fram. Á efstu myndinni er Guðbjörn Garðarsson að lýsa högginu eftir mótið í verðlaunaafhendingunni.