GRV leikur gegn Völsungi um sæti í Landsbankadeildinni
Lið GRV sigraði Þrótt frá Reykjavík í síðasta leik sínum í riðlakeppni 1. deildar kvenna. Leikið var á Grindavíkurvelli á laugardaginn og endaði viðureignin með 2-0 sigri Suðurnesjaliðsins. Framundan er tveggja leikja rimma við Völsung frá Húsavík þar sem leikið verður um sæti í efstu deild.
Fyrir leikinn gegn Þrótti hafði GRV tryggt sér annað sætið í A-riðli 1. deildar og var hann því nánast upphitun fyrir úrslitakeppnina. Ágústa Heiðdal kom GRV yfir með marki úr víti þegar rétt um 5 mínútur voru liðnar af leiknum og þannig stóð í hálfleik. Um miðjan síðari hálfleikinn bætti Begum Malali við öðru marki GRV og tryggði þar með 2-0 sigur.
GRV mun mæta Völsungi í undanúrslitum 1. deildarinnar. Fyrri leikurinn verður á Grindavíkurvelli laugardaginn 30. ágúst og hefst kl. 14:00 en sá síðari verður á Húsavíkurvelli þriðjudaginn 2. september og hefst kl. 17:30. Það lið sem hefur betur í þessum tveimur viðureignum mun tryggja sér sæti í efstu deild og mætir sigurvegaranum í rimmu Hattar og ÍR í leik um Íslandsmeistaratitilinn í 1. deild kvenna.
Mynd: Lið GRV á góða möguleika á að tryggja sér sæti í Landsbankadeild kvenna.