GRV lagði Leikni á laugardag
GRV hafði góðan 4-1 sigur gegn Leikni í A-riðli 1. deildar kvenna í knattspyrnu síðasta laugardag. Leikurinn fór fram á Garðskagavelli þar sem gestirnir komust í 1-0 á fyrstu mínútum leiksins.
GRV jafnaði metin skömmu fyrir hálfleik og fengu þær síðan ærlega yfirhalningu í leikhléi sem skilaði sér vel inn í síðari hálfleikinn. GRV gerði þrjú mörk í síðari hálfleik og lokatölur því 4-1 eins og áður greinir.
GRV er í 5. sæti A-riðils 1. deildar með 6 stig eftir þrjá leiki og mætir næst Þrótti Reykjavík á fimmtudag kl. 20:00 á Valbjarnarvelli í Reykjavík.
Þá er 2. flokkur GRV kominn í undanúrslit í Bikarkeppninni eftir 1-0 sigur á ÍBV fyrir skemmstu. Bikarkeppnin heldur áfram í ágúst þar sem GRV mun að öllum líkindum mæta KR í undanúrslitum.
VF-mynd/ Frá leik GRV og Leiknis um síðustu helgi.