Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar voru andartökum frá sigri
Þriðjudagur 12. ágúst 2008 kl. 13:45

Grindvíkingar voru andartökum frá sigri

Það var boðið upp á skemmtilegan leik í Grindavík í gærkvöldi þegar heimamenn tóku á móti Breiðablik. Bæði lið höfðu verið á góðri siglingu í deildinni. Þjálfari Grindavíkur, Milan Stefán Jankovic, var valinn besti þjálfari umferða 8-14 og Jóhann Berg Guðmundsson, úr Breiðabliki, hafði verið valinn besti leikmaðurinn.

Leikurinn byrjaði vel á strax á 6. mínútu voru heimamenn komnir yfir. Þar var að verki skoski töframaðurinn Scott Ramsey, en hann skoraði með skoti beint úr aukaspyrnu, óverjandi fyrir Casper Jacobsen í marki Breiðabliks.




Eftir markið tók Breiðablik nær öll völd á vellinum og sótti án þess þó að skapa sér mörg færi. Besta færi þeira fékk Marel Baldvinsson. Hann komst einn í gegnum vörn Grindvíkinga en Zancarlo Simunic varði glæsilega. Á lokamínútu fyrri hálfleiks tókst Grindvíkingum að bæta við öðru marki. Tomasz Stolpa fylgdi þar vel á eftir þegar Casper í marki Breiðabliks, hafði varið vel frá Orra Frey Hjaltalín. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir heimamenn.

Það var strax ljóst í byrjun seinni hálfleiks að Grindvíkingar ætluðu að freista þess að verja forustu sína og beita skyndisóknum. Kópavogsbúum tókst að minnka muninn á 56. mínútu en Marel Baldvinsson skoraði með góðu skoti við vítateigslínuna.

Grétar Hjartarson var nálægt því að koma Grindvíkingum í 3-1 en gott skot hans fór af slánni, niður á línuna og út í teig. Stuttu síðar meiddist Grétar illa og varð að fara af velli. Þetta var fjórði leikmaðurinn sem fór af velli meiddur hjá Grindvíkingum og því þurftu þeir að leika einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks.

Breiðablik setti allt kapp á sóknarleikinn á lokamínútunum en Þóroddur Hjaltalín, dómari, bætti miklum viðbótartíma við. Á lokaandartökum leiksins uppskáru Breiðablik laun erfiðisins þegar Jóhann Berg Guðmundsson skoraði glæsilegt mark. Grindvíkingar höfðu reynt að hreinsa frá markinu en ekki tókst það betur til en að boltinn féll beint fyrir fætur Jóhanns Bergs, sem þakkaði fyrir sig með einu af mörkum sumarsins.

Niðurstaðan var því 2-2 jafntelfi í leik þar sem Breiðablik voru miklu betri. Grindvíkingar eru skiljanlega súrir með að hafa misst leikinn niður í jafntefli því þeir voru ekki nema nokkrum sekúndum frá því að tryggja sér sigurinn. Grindvíkingar eru eftir leikinn með 21 stig í 8. sætinu og eru 14 stigum frá fallsæti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



VF-MYND/JJK