Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar vilja vinna titla
Stuðningsmenn Grindavíkinga vilja vinna titla og þeir komust í úrslit Geysisbikarsins á síðasta tímabili þar sem þeir töpuðu fyrir Stjörnunni – ná þeir að bæta árangurinn í ár? Mynd: Karfan.is
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 20. nóvember 2020 kl. 11:46

Grindvíkingar vilja vinna titla

Ingibergur Þ. Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, segir að þetta gangi ekki mikið lengur.

Ingibergur Þ. Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Síðasta körfuknattleikstímabil var flautað af vegna Covid-19. Deildin í ár var rétt nýhafin þegar allt fór í baklás aftur og óvissa ríkir um framhaldið. Ingibergur Þ. Jónasson er formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur og það var frekar þungt í honum hljóðið þegar Víkurfréttir heyrðu í honum og tóku stöðuna á körfuboltanum eins og hann lítur út þessa dagana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hljóðið er gott þó maður sé orðinn svolítið óþreyjufullur að fara að gera eitthvað. Þetta er hryllilega leiðinleg staða sem er komin upp,“ sagði Ingibergur en það er varla hægt að segja að deildin sé komin í gang. „Við erum búnir að spila einn leik og eins og staðan er núna þá má ekkert æfa svo við erum með heimaprógram fyrir leikmennina. Við erum heppnir að hafa Helga Jónas [Guðfinnsson] sem aðstoðar- og styrktarþjálfara hjá okkur, hann er náttúrlega bara snillingur og er búinn að setja saman æfingaprógram fyrir strákana og Óli Baldur fyrir stelpurnar – en það er ekkert verið að spila körfubolta.“

Heimamenn eru ótrúlega hliðhollir

– Hvernig er þetta að koma við reksturinn á deildinni, þetta hlýtur að vera þungt?

„Já, það er það. Það er verið að tala um að það séu engir áhorfendur en þeir borga kannski einn leik og rúmlega það – það er svo margt annað sem við getum ekki gert. Margar aðrar fjáraflanir eins og böll, bingó, karla- og kvennakvöld. Við eigum ballið á Sjóaranum síkáta, við höfum misst af þessu öllu líka – sem er stór hluti af rekstrartekjum deildarinnar.“

– Hvað með styrktaraðila, hafa þeir dregið úr styrkjum?

„Þeir sem eru heima við eru ótrúlega hliðhollir og hafa skrifað undir nýjan samning. Við erum að klára leikjaskrána sem við gefum út fyrir hvert tímabil, það er töf á henni út af þessu Covid-veseni. Hún er ekkert eins og undanfarin ár, við gerðum reyndar ráð fyrir því í fjárhagsáætlun, en kemur lygilega vel út þrátt fyrir allt.

Það kostar að hafa erlenda leikmenn, við höfum staðið við alla samninga og drógum ekkert í land með það en eins og síðasta tímabil hætti þá byrjar þetta mjög erfiðlega. Núna erum við bara að borga leikmönnum fyrir að æfa heima hjá sér – þetta er hálfgalið að maður skuli vera í þessari stöðu. Ég veit ekki hvað við förum langt á þessu, það verður eitthvað að fara að gerast.“

– Hefurðu trú á að deildirnar fari í gang fyrir áramót?

„Ég vona það. Það sem pirrar mig að það er verið að spila alls staðar, maður horfir á Masters og körfuboltann á Spáni, alls staðar er verið að spila. Við getum auðveldlega verið með leiki án þess að hafa áhorfendur, sem er það sem ég hefði viljað gera. Þessi óvissa er svo óþægileg, það veit enginn neitt. Er ekki hægt að taka ákvörðun um hvað eigi að gera? Þjálfarar í Domino’s-deildunum voru að skrifa yfirvöldum bréf, ekkert endilega til að byrja að spila heldur til að byrja að æfa, og vonandi skýrist eitthvað fljótlega.“

Hefur áhyggjur af leikmönnum

„Maður hefur líka áhyggjur af því að leikmenn hafa ekkert fyrir stafni, þeir eru heima án þess að geta stundað æfingar og svo þegar allt í einu á að byrja að spila getur það haft afleiðingar. Menn geta auðveldlega meiðst ef þeir eru ekki í leikformi, ef það er farið of geyst af stað.

Þó ég sé jákvæður að eðlisfari þá bjóst ég alveg við að það yrði eitthvað hikst á þessu en ef það verður ekki spilaður körfubolti í janúar þá veit ég ekki hvað við getum gert. Við getum ekki endalaust staðið við samninga þegar engir peningar eru að koma inn.“

– En hverjar eru væntingarnar hjá Grindvíkingum?

„Ég er alveg drullufúll yfir því að geta ekki verið að spila. Við erum í sjávarplássi með gríðarlega gott teymi á bak við okkur, bæinn, stuðningsmenn og fyrirtæki, og það er oft sagt að á svona tímum eru sjávarplássin í sókn. Þetta sóknarfæri er að renna úr höndunum á okkur, við fórum í höllina í úrslit í bikarnum síðast og ætluðum að gera eitthvað svipað í ár. Við erum með unga og kappsama stjórn sem stefnir hátt. Stuðningsmennirnir okkar vilja vinna titla, markið er sett hátt og við höfum sýnt það og sannað að við eigum heima þar – en það er ekkert útséð með það ennþá.“