Grindvíkingar úr leik!
Grindvíkingar töpuðu fyrir Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld, 116-114 , og féllu þar með úr keppni í undanúrslitum Iceland Expressdeildar karla í körfuknattleik.
Snæfellingar byrjuðu betur, en Grindvíkingar náðu frumkvæðinu í öðrum leikhluta þar sem Adama Darboe fór á kostum og jókst munurinn upp í 49-62 í hálfleik.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu í seinni hálfleik og þurfti oft og tíðum að ganga á milli manna. Gestirnir voru hins vegar sterkari framan af og stefndi allt í sigur Grindvíkinga en skotsýning Sigurðar Þorvaldssonar kom snæfelli aftur inn í leikinn og Hlynur Bæringson jafnaði leikinn fyrir lok venjulegs leiktíma, 106-106.
Leikurinn var æsispennandi í framlengingunni en Justin Shouse kom Snæfelli yfir þegar 11 sekúndur lifðu af leiknum.
Lokaskot leiksins frá Þorleifi Ólafssyni geigaði og því fór sem fór.