Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindvíkingar upp að hlið Hauka
Þriðjudagur 27. nóvember 2007 kl. 20:22

Grindvíkingar upp að hlið Hauka

Grindavík komst í kvöld upp að hlið Hauka í 2. sæti Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik eftir góðan 56-66 baráttusigur gegn Val í Vodafonehöllinni. Tiffany Robertson var atkvæðamest í Grindavíkurliðinu með 20 stig en Molly Peterman var allt í öllu hjá Val og setti niður 26 stig. Grindvíkingar hafa nú 12 stig rétt eins og Haukar en Valur er enn við botninn með tvö stig rétt eins og Fjölnir og Hamar.

 

Staðan að loknum upphafsleikhlutanum var 17-12 Val í vil en heimakonur beittu svæðisvörn sem virkaði vel því Grindvíkingar voru ekki að nýta skotin sín utan af velli. Þá léku Valskonur án þeirra Stellu Kristjánsdóttur sem stödd er í Bandaríkjunum og Cecilia Steinsen var frá sökum anna í starfi. Alma Rut Garðarsdóttir var á bekknum hjá Grindavík í kvöld en var ekki í búningi.

 

Tinna B. Sigmundsdóttir fékk snemma þrjár villur í Valsliðinu og á meðan var Ólöf Helga Pálsdóttir hvað litríkust í Grindavíkurliðinu. Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 28-27 Val í vil og Ólöf sú eina með lífsmarki í Grindavíkurliðinu en hún var með 11 stig í hálfleik.

 

Strax í síðari hálfleik fylgdu liðsfélagar Ólafar hennar fordæmi og þær Joanna Skiba, Robertson og Petrúnella Skúladóttir tóku allar góðar rispur. Petrúnella setti niður þrjár þriggja stiga körfur með skömmu millibili og kom Grindavík á lagið. Gestirnir komust loks yfir og höfðu átta stiga forystu, 41-49, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

 

Þegar sjö og hálf mínúta voru til leiksloka höfðu Grindvíkingar komið sér í góða stöðu með flottum sprettum og staðan orðin 46-60. Valur tók við það leikhlé og náði eftir það að minnka muninn í 54-60 en lengra komust þær ekki og Grindvíkingar tóku stigin tvö örugglega með 10 stiga sigri, 56-66.

 

Grindvíkingar voru hættulega seinir í gang í kvöld en sigurinn hafðist. Valsmenn fengu nýverið Molly Peterman til liðs við sig og ljóst að þær stóla of mikið á framlag hennar þar sem Molly var sú eina sem gerði 10 stig eða meira í leiknum í kvöld. Næst henni var landsliðsmiðherjinn Signý Hermannsdóttir með 9 stig.

 

Hjá Grindavík var Tiffany Robertson með 20 stig, Skiba 15, Ólöf Helga gerði 14 stig og Petrúnella var með 10 stig og þar af 9 stig úr þriggja stiga körfum.

 

Staðan í deildinni

 

VF-Mynd/ [email protected] Tiffany Robertson var stigahæst í liði Grindavíkur í kvöld með 20 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024