Grindvíkingar töpuðu í æsispennandi leik
Leikur Grindavíkur og Snæfells í Röstinni í Grindavík sýndi allt það besta sem úrslitakeppnin í körfubolta hefur upp á að bjóða. Tvö frábær lið sem bæði ætluðu sér sigur og skemmtileg tilþrif hjá báðum liðum. Gestirnir fóru hins vegar með sigur í æsispennandi leik 94-95.
Grindvíkingar byrjuðu miklu betur og náðu mest 15 stiga forystu en Hólmarar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og unnu þann mun upp. Síðustu mínúturnar skiptust liðin á að hafa forystu en Snæfell fór með sigur af hólmi í frábærum leik 94-95.
Hlynur Bæringsson átti frábæran leik hjá Snæfell með 24 stig og 15 fráköst, Sean Burton skoraði 18 stig og var með 9 stoðsendingar og steig upp í 4ja leikhluta og hjálpaði Snæfell að klára leikinn. Auk þess átti Sigurður Þorvaldsson fínan leik með 18 stig.
Hjá Grindavík átti Brenton Birmingham frábæran leik með 26 stig og 5 stoðsendingar en hitti aðeins úr 1 af 5 vítum. Ómar Örn Sævarsson barðist líka af miklum krafti og var með 11 stig og 12 fráköst og Arnar Freyr Jónsson stjórnaði liðinu vel og spilaði frábæra vörn á Sean Burton en Arnar var með 9 stig og 8 stoðsendingar.
Liðin leika næsta leik í Hólminum á mánudag.
Myndir og texti frá karfan.is