Grindvíkingar styrkja stöðu sína á toppnum
Grindavík styrkti stöðu sína í toppbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu með því að leggja botnlið Völsungs að velli á Húsavík með fimm mörkum gegn einu í gær. Heimamenn fengu tvö rauð spjöld í leiknum.
Grindavík hafði mikla yfirburði og Juraj Grizelj og Magnús Björgvinsson komu Grindavík í 2-0 fyrir hálfleik. Einn heimamanna fékk rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks og Grizelj kom Grindavík skömmu síðar í 3-0. Völsungi tókst að klóra í bakkann á 69. mínútu en fimm mínútum síðar fékk annar leikmaður heimamanna rautt spjald. Magnús og Óli Baldur Bjarnason bættu svo við tveimur mörkum í lokin og öruggur sigur Grindavíkur í höfn.