Grindvíkingar steinlágu í botnslagnum
Enn syrtir í álinn hjá Grindvíkingum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir að Selfyssingar gerðu góða ferð í Grindavík og unnu 0-4 sigur í botnslag deildarinnar.
Selfoss komst í 2:0 á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik með mörkum Jóns Daða Böðvarssonar og Jon André Röyrane. Tómas Leifsson skoraði svo glæsilegt mark, sláin inn, í upphafi seinni hálfleiks sem gerði út um leikinn. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá var dæmd vítaspyrna á Ólaf Örn Bjarnason fyrirliði Grindvíkinga þegar innan við fimm mínútur voru til leiksloka. Óskar Pétursson varði reyndar spyrnuna en Viðar Örn Kjartansson sem tók spyrnuna náði að hirða frákastið og skora.
Selfyssingar eru nú fjórum stigum fyrir ofan Grindavík og enn veikist von þeirra gulklæddu um að halda sæti sínu í deild þeirra sterkustu að ári en Grindvíkingar virtust algerlega andlausir og lítið hægt segja jákvætt um leik þeirra í kvöld.
Ian Williamson hefur verið einn af fáum ljósum punktum í Grindavíkurliðinu að undanförnu.