Grindvíkingar stefna á topp fimm!
„Við erum allir tilbúnir í baráttuna í deildinni. Við höfum spilað vel í vetur og erum með góða blöndu af reyndum leikmönnum og ungum. Við ætlum að halda áfram að gera vel eins og í undirbúningsleikjunum, en eftir þá eru leikmenn liðsins komnir með mikið sjálfstraust, enda búnir að vinna stórt í síðustu tveimur leikjum. Við ætlum að halda áfram að spila okkar bolta og ég er sannfærður um að við getum það hvort sem er í undirbúningsleikjum eða Íslandsmóti. Nýir leikmenn koma mjög vel út og þeir sem eru áfram síðan í fyrra hafa verið að bæta sig síðan þá. Nokkrir leikmenn eru reyndar farnir frá okkur og þá er auðvitað mestur missir af Grétari Hjartarsyni þar sem hann var okkar besti maður á síðasta ári og skoraði grimmt,“ segir Milan Jankovic, í samtali við Víkurfréttir. Jankovic segir tilkomu Reykjaneshallarinnar breyta miklu fyrir þá, eins og reyndar flesta aðra og þá sérstaklega til lengri tíma litið. Þá segir hann leikmenn læra að spila í svona húsi, því þar þurfi að spila einfalt, en það þurfi allir að geta.„Takmark okkar í sumar er að vera í einu af fyrstu 5 sætunum í deildinni, rétt eins og spá þjálfara og fyrirliða í deildinni segir til um. Ég tel þá spá nokkuð réttmæta. Þeir aðilar sem spá þar vita mest um það hvernig þeir sjálfir standa og hvernig hin liðin í deildinni eru.“ Segir Jankovic að lokum.