Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 6. febrúar 1999 kl. 12:32

GRINDVÍKINGAR STANDAST ÖLL PRÓF

Grindvíkingar standast öll próf Mörgum varð á messunni í spámennskunni er Grindvíkingar gengu í gegnum hremmingarnar varðandi brottrekstur Guðmundar Bragasonar og formannskiptin sem fylgdu og var blm. einn þeirra. Einar Einarsson, sem var látinn fara hjá Haukum m.a vegna samskiptaörðugleika, tók við þjálfarastöðunni og hefur liðið ekki tapað leik undir hans stjórn og samstaða leikmanna er frábær. Páll Vilbergsson, 2 metra þriggja stiga skyttan sem hefur mátt búa við óstaðfesta lyfjamisnotkunarásökun því sem næst allt tímabilið, hefur sýnt og sannað að skútan heldur vatni með hann undir körfunni. Warren Peeples, sem virtist vera á heimleið um jólin, hefur snúið við blaðinu og tryggt stöðu sína. Herbert Arnarson, stjarnan sem margir töldu ekki getað þolað að vera ekki alltaf í aðalhlutverkinu, hefur gert allt sem þarf til að sigra hvern leik sama hvert hlutverk hans sjálfs er í sóknarleiknum. Svona mætti telja upp hvern leikmann liðsins, allir hafa staðið undir breyttum kröfum og liðið komið aftur í toppbaráttuna. Tröppugangurinn, sem hefur verið klassískur (Borgarnes, ÍA, KR og Haukar) með falsspámenn við hvert húshorn að spá yfirvofandi ragnarökum, endar næstkomandi fimmtudag er liðið mætir meistaraefnum Keflvíkinga. Liðið sem afskrifað var um áramótin er orðið líklegra til að hampa Íslandsmeistaratitlinum en yfirhlaðið landsliðsmannalið núverandi meistara. DHL-deildin: Karakterleysi hjá UMFN Grindvíkingar héldu sigurgöngunni ótrauðir áfram og sigruðu Hauka á útivelli 95-100 í framlengdum leik. Eitthvað hefur þó miðjan lekið því Roy Hairston skoraði 52 af 95 stigum Hafnfirðinga. Keflvíkingar rúlluðu Skagamönnum upp 110-93 á 80% hraða í leik sem Hjörtur Harðarson (25 stig/11 frák./ 8 stoðs.)fór á kostum í og hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum. ,,Við vorum hálfkærulausir enda hugurinn í Höllinni. Við náðum að rífa okkur upp um miðjan seinni hálfleik og tryggja sigurinn sem er það sem skiptir máli” sagði Hjörtur að leik loknum. Njarðvíkingar eru í vandræðum og töpuðu fyrir KR-ingum 60-59 í Belfast okkar Íslendinga, Hagaskóla. ,,Þetta var slakasti fyrri hálfleikur nokkurs liðs undir minni stjórn og liðið sýndi alls ekki þann karakter sem þarf til að vera í toppbaráttunni” sagði Friðrik Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024