Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar stálu stigunum í Keflavík
Mánudagur 15. ágúst 2011 kl. 22:01

Grindvíkingar stálu stigunum í Keflavík

Grindvíkingar unnu dýrmætan 1-2 sigur á grönnum sínum í Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram á heimavelli Keflvíkinga og skoraði Óli Baldur Bjarnason sigurmarkið þegar skammt var til leiksloka.

Orri Freyr Hjaltalín kom gestunum frá Grindavík yfir eftir 20 mínútur eftir að boltinn barst til hans eftir hornspyrnu og hann skoraði með föstu skoti úr teignum.

Aðeins 7 mínútum síðar skoraði Guðmundur Steinarsson sögulegt mark. Hann skoraði þá sitt 73. mark fyrir Keflvíkinga og skákaði þar með karli föður sínum sem átti metið fyrir. Markið skoraði Guðmundur úr aukaspyrnu af kantinum en boltinn hafði þó örlitla viðkomu af varnarmanni Grindvíkinga.

Keflvíkingar voru að spila ágætis bolta á köflum í fyrri hálfleik og virtust líklegri til þess að hirða stigin þrjú.

Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum og Keflvíkingar voru meira með boltann og náðu að skapa sér nokkur ákjósanleg færi án þess að skora og Arnór Ingvi Traustason átti m.a skot í stöng af stuttu færi.

Það dró svo til tíðinda í blálokin þegar að Óli Baldur skallaði fyrirgjöf Robbie Winters inn fyrir línuna en Ómar í marki Keflvíkinga var hársbreidd frá því að verja boltann. Keflvíkingar heimtuðu rangstöðu en markið stóð engu að síður. Skömmu síðar vilja Keflvíkingar fá vítaspyrnu þegar Magnús Þórir virtist vera togaður niður í teig Grindvíkinga en ekkert var dæmt.

Eftir leiki kvöldsins eru Suðurnesjaliðin tvö í svipuðum málum en Grindvíkingar hafa 16 stig eftir 15 leiki og verma 10. sæti en Keflavík er með 17 stig eftir 14 leiki og eru í 7. sæti.

Staðan



VF-Mynd: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024