Grindvíkingar sóttu fyrsta stigið að Hlíðarenda
Grindvíkingar náðu sínum fyrstu stigum í Pepsi-deild karla með 1-1 jafntefli við Val á Hlíðarenda í gærkvöldi. Gestirnir frá Grindavík voru sprækir í fyrri hálfleik og komust yfir á 16. mínútu með marki Scott Ramey úr aukaspyrnu af löngu færi. Skotið var fast en Kjartan Sturluson í marki Vals hefði átt að gera betur.
Gilles Mbang Ondo hefði getað komið þeim gulklæddu í 2-0 skömmu fyrir hálfleik þegar hann slapp einn í gegnum vörn Valsmanna. Skot hans fór hins vegar rétt framhjá og gullið tækifæri rann úr greipum gestanna.
Grindvíkingar héldu sig tilbaka í seinni hálfleik og heimamenn stjórnuðu ferðinni. Það var því í takti við gang leiksins þegar Marel Baldvinsson jafnaði metinn á 83. mínútu með skalla. Valsmenn gerðust aðgangsharðir að marki Grindavíkur en lokatölur leiksins urðu 1-1 og fyrsta stig Grindavíkur í deildinni staðreynd.
Luka Kostic var að stýra Grindvíkingum í sínum fyrsta leik en hann tók við liðinu af Milan Stefán Jankovic á dögunum. Það var baráttubragur á gulum í gærkvöldi og spurning hvort að fyrsti sigurinn í líti dagsins ljós á fimmtudagsköld þegar liðið tekur á móti Þrótti R. að heimavelli sínum.
VF-Mynd: Scott Ramsey var á skotskónum hjá Grindavík í gær.