Grindvíkingar skoruðu fimm í sigri á toppliðinu
Grindavík vann glæsilegan sigur á efsta liði Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu þegar HK mætti á Stakkavíkurvöll í gær, alls voru átta mörk skoruð í leiknum. Grindvíkingar eru komnar í fimmta sæti deildarinnar en þær unnu Gróttu, liðið í þriðja efsta sæti, í þarsíðustu umferð.
Sigríður Emma F. Jónsdóttir opnaði markaveislu kvöldsins á 10. mínútu en HK jafnaði skömmu síðar (16').
Ása Björg Einarsdóttir kom Grindavík aftur í forystu (23') og Ariana Lynn Veland bætti við þriðja marki Grindvíkinga fimm mínútutum síðar (28').
Gestirnir minnkuðu muninn á 34. mínútu og staðan því 3:2 í hálfleik.
Veland bætti stöðu Grindavíkur þegar hún skoraði annð mark sitt þegar tólf mínútur voru liðnar af síðari hálfleik (57'). Jada Lenise Colbert var skipt inn á rétt eftir markið og hún þurfti ekki nemar tvær, þrjár mínútur til að stimpla sig inn í leikinn þegar hún skoraði fimmta og síðasta mark Grindavíkur (62').
HK minnkaði muninn á 71. mínútu en lengra komst gestaliðið ekki og góður sigur Grindvíkinga því í höfn.