Grindvíkingar rétta úr kútnum með glæsilegum sigri
Grindvíkingar lyftu sér upp úr mesta hættusvæðinu í Landsbankadeildinni með glæsilegum útisigri á KR, 2-3.
Leikurinn var afbragðs skemmtun fyrir áhorfendur sem lögðu leið sína í Frostaskjól og Grindvíkingar vel að sigrinum komnir.
Gestirnir byrjuðu mjög sterkt og voru ógnandi á upphafsmínútunum þar sem Grétar Hjartarson og Orri Freyr Hjaltalín áttu báðir ágætis tækifæri til að opna leikinn. Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 19. mín þegar bakvörðurinn knái, Ray Anthony Jónsson, skallaði knöttinn í netið eftir hornspyrnu.
Sannarlega góð byrjun hjá Grindvíkingum en í stað þess að halda áfram keyrslunni gáfu þeir eftir og Íslandsmeistararnir fóru að láta til sín taka.
Pressan jókst þar til undan lét á 32. mín þegar Sigurvin Ólafsson jafnaði leikinn með glæsilegu þrumuskoti í slánna og inn.
Vesturbæingar gengu á lagið og komust yfir fjórum mínútum seinna þegar Arnar Gunnlaugsson náði boltanum eftir að Albert Sævarsson, ágætur markvörður Grindvíkinga hafði varið frá Kjartani Henry Finnbogasyni. Staðan orðin 2-1 og stuðningsmenn heimamanna orðnir vongóðir um að hirða stigin þrjú.
Grindvíkingar tóku sig saman í andlitinu í hálfleik og mættu sterkir út á grasið. Þeir jöfnuðu leikinn á 64. mín þegar Orri Freyr framlengdi útspark Alberts inn fyrir vörnina þar sem markakóngurinn Grétar Hjartarson kom aðvífandi og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Kristjáni Finnbogasyni.
Rothöggið kom svo um sex mínútum fyrir leikslok þegar Óskar Örn Hauksson, sem hafði komið inná sem varamaður stuttu áður, lét vaða á markið af löngu færi. Vinstri fótar skot hans sveif í gegnum vörnina og framhjá Kristjáni, beint í fjærhornið.
Sigur Grindvíkinga var frábær og eru þeir greinilega ekki á þeim buxunum að falla baráttulaust.
„Þetta var mjög skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur, sérstaklega Grindvíkinga,“ sagði Ray Anthony í samtali við Víkurfréttir í kvöld. „Við duttum aðeins niður eftir fyrsta markið og KR voru sterkari fram að hálfleik, en við ætluðum okkur að skora allaveganna eitt mark í viðbót. Við tókum þá stjórnina og börðumst grimmilega og erum nú búnir að vinna tvo leiki í röð og erum á góðu róli.“
VF-myndir úr safni