Grindvíkingar ósáttir við dómara

- Orð gegn orði

Eftir leik Grindavíkur og Njarðvíkur í gær í Domino’s-deild karla í körfu kvartaði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Vísir undan dómara sem var með „trash talk“ í garð leikmanns Grindavíkur.

„Þetta var ekkert sem ræður úrslitum en þegar dómarar, eða einn af þremur, er farinn að vera með stæla og svokallað „trash talk“ við leikmenn þá er það komið út fyrir öll velsæmismörk og á ekki að sjást. Það er eitthvað sem ég ræð ekki við og er orð á móti orði,“ sagði Jóhann við Vísi eftir leikinn í gær.

Vísir hafði samband við Jóhann aftur í dag og sagði hann að það hafi verið leikmaður í liði Grindavíkur sem hafi kvartað yfir þessu og að hann hafi komið þessu til skila til dómara leiksins. Jóhann segist ekki vita nákvæmlega hvað gekk á en einhver orð hafi verið látin falla. Hann eigi eftir að ræða betur við leikmanninn sem lenti í þessu og viti í raun og veru ekkert meira.
Jóhann vildi ekki gefa upp hvaða dómari þetta var en þeir Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Heiðarsson og Jóhann Guðmundsson dæmdu leikinn. Jóhann segir í samtali við Vísir að Grindvíkingar ætli sér ekki lengra með málið og muni ekki kvarta formlega við KKÍ vegna hegðun dómarans því þeir hafi ekkert upp úr því og það verði bara orð gegn orði.