Grindvíkingar náðu fram hefndum
Tóku grannaslaginn í kvennaboltanum
Það var hart barist í grannaslagnum í 1. deild kvenna í fótboltanum í gær, þegar Grindvíkingar lögðu Keflvíkinga 2-1 á heimavelli sínum. Keflvíkingar unnu dramatískan sigur í fyrri leik liðanna í Keflavík fyrr í sumar.
Grindvíkingar sóttu látlaust í fyrri hálfleik og dældu boltanum inn í teig Keflvíkinga sem vörðust fimlega. Eftir þunga sókn heimaliðsins komust Keflvíkingar í skyndisókn sem endaði með marki Amber Pennybaker á 20. mínútu. Grindvíkingar létu það ekki á sig fá og héldu uppteknum hætti. Það skilaði sér í jöfnunarmarki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Eftir enn eina fyrirgjöfina frá hægri náði Marjani Hing-Glover að setja fótinn í boltann og stýra honum í markhornið. Staðan 1-1 í hálfleik.
Í síðari hálfleik voru það Grindvíkingar sem voru sterkari aðilinn en þeim tókst að tryggja sér sigurinn eftir klukkustundar leik. Þar var Marjani Hing-Glover aftur á ferðinni. Tveir leikmenn Keflvíkinga fengu svo að líta rauða spjaldið í uppbótartíma leiksins.
Grindvíkingar eru efstar í í b-riðli 1. deildar með 22 stig en Keflvíkingar eru í sjötta sæti með 10 stig.
Amber skorar fyrsta mark leiksins hér að ofan en Marjani jafnaði metin skömmu síðar.