Grindvíkingar meistarar meistaranna
Grindvíkingar tryggðu sér nafnbótina meistarar meistaranna í körfubolta karla þriðja árið í röð í gær með sigri á Stjörnumönnum á heimavelli sínum. Lokatölur urðu 105-96 í leik þar sem Grindvíkingar voru ávallt skrefinu á undan. Hjá Grindvíkingum var Sigurður Gunnar Þorsteinsson sjóðheitur, en hann skoraði 28 stig og hitti úr 86% skota sinna.
Jóhann Árni Ólafsson skoraði 19 stig en tveir ungir leikmenn Grindavíkur vöktu athygli í leiknum. Það voru þeir Hilmir Kristjánsson sem skoraði 17 stig og nýtti skot sín afar vel, svo var það bakvörðurinn Jón Axel Guðmundsson sem skoraði 9 stig og tók 9 fráköst.