Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar með góð stig að vestan
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, skoraði eitt marka Grindvíkinga í góðum sigri á Vestra í Lengjudeild karla.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 4. júlí 2020 kl. 18:45

Grindvíkingar með góð stig að vestan

Í Lengjudeild karla mættu Grindvíkingar Vestra á Ísafirði í dag og í fyrri hálfleik kom nýliðinn í liði Grindavíkur, Stefán Ingi Sævarsson, þeim yfir (23’). Þannig var staðan í hálfleik og í þeim síðari tvöfaldaði fyrirliði þeirra gulu, Gunnar Þorsteinsson, forystuna (47’). Eitthvað virðast Grindvíkingar hafa orðið værukærir eftir þetta mark því þeir leyfðu Ísfirðingunum að komast inn í leikinn og jafna með mörkum á 64. og 74. mínútu. Í lokin koma Alexander Veigar Þórarinsson til bjargar og skoraði (87’). Góður sigur á Ísafirði og tveir sigrar í röð.

Eftir tap Keflvíkinga í gær og sigur Grindvíkinga í dag eru þau jöfn með sex stig í fimmta og sjötta sæti deildarinnar. Það er því útlit fyrir magnaðan Suðurnesjaslag í næstu viku þegar Grindvíkingar bjóða Keflvíkingum í heimsókn í fjórðu umferð Lengjudeildar karla. Leikið verður miðvikudaginn 8. júlí klukkan 19:15.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

2. deild karla:

Suðurnesjaliðin töpuðu

Þróttur enn án sigurs

Þróttur tók á móti Haukum á Vogaídýfuvellinum í gær. Haukar höfðu unnið báða sína leiki á meðan Þróttarar voru enn á höttunum eftir sínum fyrsta sigri en þeir höfðu gert jafntefli í báðum sínum leikjum.

Það voru Þróttarar sem byrjuðu leikinn betur, á 18. mínútu kom Brynjar Jónasson boltanum í netið eftir fyrirgjöf og kom Þrótti yfir, 1:0. Fimm mínútum síðar fengu Haukar dæmda aukaspyrnu rétt utan teigs Þróttara sem Nikola Dejan Djuric, leikmaður Hauka, tók og átti frábært skot og skoraði í samskeytin. Með þessu frábæra marki jafnaði hann leikinn en á 27. mínútu skoraði hann aftur. Nú eftir að Þróttarar tóku hornspyrnu sem ekkert varð úr, þeir litu af Djuric sem var einn og óvaldaður þegar hann fékk boltann og skoraði. Haukar komnir yfir.

Leikurinn var fast spilaður og fengu Þróttarar fimm gul spjöld í leiknum, þar af eitt á bekkinn. Þróttarar hafa fengið fimmtán gul spjöld í fyrstu þremur umferðum Íslandsmótsins sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Brynjar Þór, þjálfara liðsins, en hann sagði í viðtali við Víkurfréttir að það vantaði breidd í leikmannahóp þeirra.

Víðismenn voru teknir í bakaríið fyrir austan

Fjarðabyggð tók á móti Víði í dag í þriðju umferð Íslandsmóts 2. deildar karla og fór leikurinn fram á Reyðarfirði. Bæði lið höfðu unnið einn leik og til mikils að vinna fyrir bæði lið.

Það fór nú lítið fyrir gestrisninni þarna fyrir austan og strax á 3. mínútu opnuðu þeir markareikning sinn. Þeir voru hvergi hættir og bættu þremur mörkum við fyrir leikhlé, staðan 4:0 í hálfleik. Til að bæta gráu ofan á svart var Jóni Gunnari Sæmundssyni, leikmanni Víðis, sýnt rauða spjaldið rétt fyrir hlé og þurftu Víðismenn því að leika einum færri allan síðari hálfleikinn.

Strax í byrjun seinni hálfleiks kom Anibal Hernandez Lopez Víðismönnum á blað og minnkaði muninn í 4:1. Það tók Fjarðabyggð ekki nema tvær mínútur að svara fyrir það með marki og bættu um betur á 85. mínútu. Lokatölur 6:1 fyrir Fjarðabyggð og sennilega löng og leiðinleg ferð heim framundan hjá Víðismönnum.

3. deild karla:

Reynis með sigur á Vopnafirði

Einherji skoraði gegn Reyni strax á 5. mínútu en skömmu síðar jafnaði Ársæll Kristinn Björnsson leikinn úr vítaspyrnu (11’). Einherjar komust aftur yfir á 14. mínútu en Reynir svaraði aftur á 23. mínútu, þar var að verki Óðinn Jóhannsson. Staðan því jöfn í hálfleik.

Síðari hálfleikur bauð ekki upp á sömu markasúpuna en eitt mark var skorað, þar var aftur að verki Ársæll sem skoraði úr annari vítaspyrnu Reynismanna. Þar við sat og Reynir fer með þrjú sæt stig í farteskinu heim á leið.